[x]
11. mars 2015

Rannsóknarboranir á Filippseyjum

Umfjöllun fréttastofunnar Voice of America um jarðhitaboranir á Mindoro á Filippseyjum. ÍSOR hefur verið með sérfræðinga að störfum meira og minna allt síðasta ár á eyjunni Mindoro á Filippseyjum vegna jarðhitaverkefna. Verkið er unnið fyrir fyrirtækið Emerging Power Inc. sem áætlar að reisa allt að 40 MW virkjun, ef svæðið stendur undir því, til rafmagnsframleiðslu fyrir heimamenn á eyjunni.

Rannsóknarvinnan á vegum ÍSOR hófst í byrjun síðasta árs en þá var jarðhiti í efstu kílómetrum jarðskorpunnar kortlagður með viðnámsmælingum. Í kjölfarið fylgdu segul- og þyngdarmælingar sem og efnasýnataka. Byrjað var að bora grannar rannsóknarholur í desember og hafa jarðfræðingar verið á vakt allan tímann við borholuráðgjöf og mælingar.

Jarðhitasvæðið sem um ræðir heitir Montelago. Það er um 170 km suður af Manila, höfuðborg Filippseyja. Vonast er til að þessar boranir gefi fyrirheit um að hægt verði að reisa allt að 40 MWe virkjun og þar með lækka rafmagnsreikning íbúa um helming.

Bandaríska fréttastofan Voice of America birti á dögunum umfjöllun um framkvæmdirnar, hægt er að horfa á það hér á YouTube.