[x]
7. september 2007

Rannsóknaboranir á norðausturlandi

Borhola KJ-35 við Rauðhól. Ljósmynd Birkir FanndalFrá því apríl í ár hafa verið boraðar 3 rannsóknarborholur með jarðbornum Jötni. Tvær holur í Kröflu, í Sandabotnum og vestan Rauðhóls. Hola KS-01 (58801) í Sandabotnum varð 2502 m löng og var stefnuboruð til austurs. Í lok borunar eftir örvunaraðgerðir tók holan við 57 L/s. Hola KJ-35 (58035) vestan Rauðhóls var forboruð 1982, en fallið var frá borun á þeim tíma. Í ár var holan stefnuboruð í áttina að Mývatnseldagígum og endaði í sprungustykkinu sunnan Leirhnjúks. Tæplega 1300 m vinnslufóðring var sett í hana til að fóðra af efra kerfið, sem er 190-210°C heitt. Holan varð 2507 m löng og töpuðust yfir 70 L/s þegar borun lauk.

Báðum holunum var hleypt upp 16. ágúst síðastliðinn og er árangur velviðunandi. Hola KS-01 gefur sem samsvarar 4-5 MW í raforku og KJ-35 gefur 8-9 MWe. Enn sem komið er virðist vökvinn úr holunum vera í góðu lagi.

Lokið var við borun holu ÞG-04 (60404) á Þeistareykjum 30. ágúst með góðum árangri, en yfir 70L/s töpuðust í borlok. Holan varð 2240 m löng og var stefnuboruð frá borteig holu ÞG-01 undir Bæjarfjallið í stefnu litlu austan við suður.

Næsta verkefni í rannsóknarborunum NA-lands er að bora holu ÞG-05 á Þeistareykjum frá borteig holu ÞG-01 til vesturs. Væntanlega verður jarðborinn Jötunn tilbúinn í það verk þegar rúm vika er liðin af september.