[x]
15. október 2007

Rangfærsla í fréttum Ríkissjónvarpsins

Í umfjöllun í fréttum Sjónvarpsins laugardagskvöldið 13 . október um málefni Orkuveitu Reykjavíkur og samning hennar við Reykjavík Energy Invest sagði meðal annars:

    „Samningurinn mun ekki vera einsdæmi þó þetta sé í fyrsta skipti sem samkomulag af þessu tagi er fest á blað. Heimildir fréttastofu herma að þegar Orkustofnun, Íslenskar orkurannsóknir verkfræðifyrirtæki og orkufyrirtæki tóku að leggja drög að orkuútrásinni fyrir mörgum árum hafi þau gert með sér óformlegt samkomulag um að sameina krafta sína í útrásarfyrirtækjunum Virkir-Orkint og síðar Enex og leita ekki út fyrir þau. Samningur OR við REI sé af sama meiði nema nú hafi það verið neglt niður með samningi.“

Megininntak þessarar fréttaklausu er rangt. Vissulega er það rétt að ofannefndir aðilar voru að sameina krafta sína í verkefnum og verkefnaöflun erlendis en því fer fjarri að gert hafi verið eitthvert óformlegt samkomulag um að leita ekki út fyrir Enex (sem áður hét Virkir-Orkint). Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og forveri þeirra, Rannsóknarsvið Orkustofnunar hafa að minnsta kosti aldrei verið aðilar að slíku samkomulagi. Þannig hafa flestir aðilar að Enex leitað út fyrir fyrirtækið og unnið sjálfstætt eða fyrir aðra aðila að verkefnum erlendis allt eftir eðli verkefnanna og markaðsaðstæðum hverju sinni.Þrátt fyrir að forstjóri ÍSOR hafi haft samband við fréttastofu sjónvarpsins strax og fréttin var lesin var rangfærslan ekki leiðrétt.