[x]
17. október 2005

Rangar upplýsingar um rannsóknaniðurstöður vegna Vestmannaeyjaganga

Í Morgunblaðinu í dag, 17. október, birtist grein eftir Árna Johnsen undir yfirskriftinni "Eins og hálfs milljarð lækkun á Eyjajarðgöngum".  Í greininni er sagt frá rannsóknum sem ÍSOR gerði fyrir Vegagerðina á aðstæðum til jarðgangagerðar milli lands og Eyja og réttilega sagt að þær hafi gengið vel.  Í greininni stendur ennfremur:  "... samkvæmt áreiðanlegum heimildum að í mælingum á dýrasta hluta jarðgangaleiðarinnar, upptökunni við Kross, hafi gleðilegar staðreyndir komið í ljós fyrir framgang verkefnisins. Með víðtækum mælingum á landsvæðinu í kringum Kross reyndist grynnsta dýpt niður á fast berg vera 21 metri og á nokkrum kafla hryggjarins rokkaði dýpið frá 21 í 27 metra." Þetta er að sögn greinarhöfundar mun minna en gert hafi verið ráð fyrir í frumáætlunum um jarðgöng milli lands og Eyja.  Þessi niðurstaða leiðir síðan til þess að mati greinarhöfundar að kostnaður við göngin verði 1,5 milljarði lægri en talið var. Þær "áreiðanlegu heimildir" sem þarna er vitnað til eru því miður rangar og þar með sú ályktun sem af því er dregin.  Úrvinnsla mælinganna stendur enn yfir og er nú á lokastigi. Niðurstöður verða afhentar Vegagerðinni innan skamms. Hún hefur því miður reynst nokkuð tímafrekari en upphaflega var áætlað. Íslenskar orkurannsóknir vinna þessar rannsóknir fyrir Vegagerðina og eru bundnar trúnaði við hana eins og aðra sem ÍSOR veitir þjónustu. Vegagerðin mun væntanlega gera opinberlega gein fyrir niðurstöðum ÍSOR þegar þær liggja endanlega fyrir.