[x]
21. nóvember 2008

Ráðstefna og námskeið um jarðhitamál Austur-Afríku

Þátttakendur og fyrirlesarar á námskeiðinu í Úganda. Ljósm. frá Jarðhitaskólanum.Námskeið um rannsóknir og nýtingu jarðhitasvæða “Geothermal Project Management and Development” fer nú fram í Úganda. Námskeiðið er ætlað millistjórnendum og koma þátttakendur frá 10 löndum Austur-Afríku auk tveggja Evrópulanda. Tveir starfsmenn ÍSOR, Benedikt Steingrímsson og Knútur Árnason eru meðal fyrirlesara. Að auki koma tveir fyrirlesarar frá Jarðhitaskólanum, einn frá Orkuveitu Reykjavíkur og sex sérfræðingar frá Kenía. Að námskeiðinu standa Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, orkufyrirtækið KenGen í Kenía og Orkumálaráðuneyti Úganda.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar og námsgögn á vef Jarðhitaskólans.

Námskeiðið er haldið í tengslum við ráðstefnuna ARGeo (African Rift Geothermal Facility) sem fram fer í Úganda 24.–28. nóv. ARGeo er samstarf Austur-Afríku landanna Djibouti, Eritreu, Eþíópíu, Kenía, Úganda og Tanzaníu.  Á ráðstefnunni  verður fjallað um jarðhitamál landanna, skipulag við rannsóknir, virkjun og fjármögnun jarðhitaframkvæmda. Fyrirlesarar koma frá ýmsum löndum og frá ÍSOR eru þeir Peter E. Danielsen, Árni Ragnarsson, Benedikt Steingrímsson og Knútur Árnason.