[x]
2. júlí 2009

Ráðgjafar ÍSOR við störf í Níkaragva

Tveir starfsmenn ÍSOR, Gylfi Páll Hersir og Magnús Ólafsson, voru dagana 15.–17. júní í Managua, höfuðborg Níkaragva á vegum Þróunarsamvinnustofnunar. Erindið var að ræða nýútkomna skýrslu Enel Geonica um yfirborðsrannsóknir á Managua-Chiltepe jarðhitasvæðinu.

Talið er að svæðið geti staðið undir allt að rúmlega 100 MW virkjun miðað við 30 ára nýtingu. Samtals er áætlað að ná megi 1500 MW orku úr 10 jarðhitasvæðum í landinu. Ítalskir aðilar (Enel) eiga 60% í Enel Geonica og aðilar frá El Salvador (LaGeo) 40%. Fyrirtækið er með rétt til rannsókna á jarðhitasvæðinu og mögulega rétt til virkjunar og nýtingar í framhaldinu. Hlutverk Þróunarsamvinnustofnunar er að vera ráðgefandi fyrir jarðhitadeild MEM (Minstry of Energy and Mines) hvað varðar eftirlitshlutverk með rannsóknum og nýtingu kerfanna. Því fóru fyrrnefndir starfsmenn ÍSOR til Níkaragva. Þeir fluttu einnig fyrirlestra og tóku þátt í umræðum um jarðfræði-, jarðefnafræði- og jarðeðlisfræðiathuganir við jarðhitarannsóknir í því skyni að auka þekkingu starfsfólks MEM á yfirborðsrannsóknum við jarðhitaleit. Í skýrslunni er greint frá jarðfræði- og efnafræðiathugunum á svæðinu og raktar niðurstöður nýlegra rannsókna á sviði jarðeðlisfræði (viðnáms-, þyngdar- og segulmælinga auk eldri jarðskjálftamælinga). Boraðar verða tvær tilraunaborholur.

Í leiðinni var jarðhitasvæðið skoðað en það er mikil náttúruparadís. Þar eru tvær myndarlegar öskjur, Apoyeque (gaus fyrir 2000 árum) og Xiloá (gaus fyrir 2500 árum). Chiltepe er skagi sem gengur út í Managua-vatn rétt norðvestur af höfuðborginni. Jarðhitasvæðin í landinu eru á sem næst tveimur samsíða línum í Níkaragva-lægðinni sem hliðrast um Chiltepe-skagann. Jarðfræði- og jarðeðlisfræðilegar aðstæður eru keimlíkar þeim sem við eigum að venjast á háhitasvæðum hér á landi. Enel-Geonica er einnig með áðurnefndan rétt á El Hoyo-Monte Galán jarðhitasvæðinu en þar er nú verið að bora fyrstu holuna. Tækifærið var notað til þess að skoða það svæði en starfsmenn ÍSOR leggja nú mat á skýrslu Enel Geonica um nýlegar yfirborðsrannsóknir þaðan.

 El Houo-Monte Galán jarðhitasvæðið.
Borstæðið á El Hoyo-Monte Galán: Gylfi Páll, Paolo Bona yfirverkfræðingur Geonica, Robertha Quintero jarðfræðingur hjá MEM og Magnús.

Leyndardómar jarðeðlisfræðinnar á Chiltepe útskýrðir fyrir Robertha og Magnúsi.

Borstæði á Chiltepe.