[x]
18. nóvember 2020

Óvenjuleg jarðskjálftahrina við Hrísey

Lítil jarðskjálftahrina varð skammt norður af Hrísey í lok október og byrjun nóvember. Jarðskjálftarnir voru allir mjög litlir, flestir minni en 1 að stærð. Þeir hafa því væntanlega ekki fundist nema með mælitækjum.

Jarðskjálftarnir mældust á landsneti Veðurstofu Íslands en einnig sérlega vel á staðbundnu kerfi jarðskjálftamæla sem ÍSOR rekur fyrir Norðurorku í Eyjafirði. Tilgangur þessa staðbundna jarðskjálftamælanets er að fylgjast af meiri nákvæmni með virkum sprungum og mögulegum tengslum þeirra við vinnslusvæði Norðurorku. Auk þess að vinna heitt vatn fyrir Akureyri og aðrar byggðir Eyjafjarðar sunnan Dalvíkur vinnur Norðurorka heitt vatn úr jörðu í Hrísey og á Ólafsfirði.
  Yfirlitsmynd af Hrísey og nágrenni. Landið er svart á kortinu en aðrir litir tákna dýpi þar sem rautt er grynnst en blátt dýpst. Dýptarmæligögnin sem kortið byggist á eru frá Sjómælingum Landhelgisgæslunnar, Norðurorku, Hafrannsóknastofnun og úr OLEX-gagnagrunninum.
Mynd 1 sýnir staðsetningu jarðskjálftanna norðan Hríseyjar ásamt landslagi á sjávarbotni samkvæmt gagnagrunni ÍSOR og ýmsum jarðfræðifyrirbærum þar nærri. Jarðskjálftarnir virðast að mestu raða sér upp með NNV-læga stefnu sem bendir til þess að þeir hafi orðið á sprungu með þá stefnu. Það sem er óvenjulegt við þessa hrinu er hversu grunnt upptök jarðskjálftanna voru, en flestir voru ofan eins kílómetra dýpis. Til samanburðar má nefna að jarðskjálftar sem mældust með jarðskjálftamælaneti Norðurorku á þessum slóðum frá desember 2016 og til ársloka 2019 urðu yfirleitt á 8-13 km dýpi, þar með taldir jarðskjálftar undir jarðhitakerfinu á Hjalteyri.

Í Hrísey er jarðhita að finna á tveimur stöðum. Annars vegar er jarðhitasvæði á ströndinni við Stapa skammt frá þorpinu og hins vegar við ströndina við Laugakamb alveg nyrst á eynni. Fyrrnefnda svæðið er nýtt til orkuvinnslu fyrir þorpið í Hrísey. Þar má finna opna sprungu með NV-læga stefnu og bergganga með NNA-læga stefnu. Svæðið við Laugakamb er alveg óhreyft af mannavöldum.
 
Mynd 2 sýnir stækkaða mynd af aðstæðum við og norður af Laugakambi. Þar sjást misgengi með stefnu NNV og berggangar með NNA-stefnu, svipað og á vinnslusvæðinu við Stapa. Algengt er að finna laugar þar sem slík fyrirbæri skerast. Jarðskjálftaupptökin raða sér einnig nokkurn veginn á línu með NNV-læga stefnu. Það bendir til þess að þarna sé hreyfing á því kerfi misgengja sem jarðhitinn við Laugakamb tengist og á því dýpi þar sem jarðhitasvæðið nær til.

Stækkuð mynd af nyrsta hluta Hríseyjar. Þarna má sjá upptök jarðskjálftanna (gráir punktar), bergganga (bláar línur) og misgengi sem lesa má úr nákvæmum fjölgeislamælingum Sjómælinga Landhelgisgæslunnar (svört strik). 
Þar sem engin jarðhitavinnsla er nærri jarðskjálftaupptökunum verður að telja að hér sé um ótruflað, náttúrulegt ferli að ræða sem sýnir hvernig náttúrlegir jarðskjálftar opna sprungur í jörðinni og búa til og viðhalda jarðhitakerfum. Svona atburðir veita innsýn í myndun og gerð jarðhitakerfa.