[x]
13. desemeber 2007

Opnað fyrir holu KJ-36 í Kröflu

Upphleyping holu KJ-36 í Kröflu 12. desember 2007.  Hávaðinn og lætin voru gífurleg  en myndirnar tala sínu máli. Ljósmynd Elfar J. Eiríksson.Gífurlegur hávaði braust út þegar holan KJ-36 í Kröflu var hleypt upp í gær. Um klukkan 11:15 í gærmorgun var skrúfað frá holunni eftir að gufan hafði verið látin smá leka (blæða) í örlítinn tíma til að hita toppinn. Toppþrýstingurinn við þessar aðstæður var um 125 bar. Hún kom kröftuglega upp með tiltölulega hreinni gufu, í það minnsta var hún hvít að sjá. Ekkert vatn kom og hélst það þannig allan tímann. Eftir 5-10 mínútur fór gufan að dökkna og um tíma var mökkurinn nánast svartur eins og sjá má í eldgosum. Sunnan strekkingur var meðan á upphleypingu stóð og litaðist snjórinn svartur undir mekkinum sem teygðist einhverja hundruð metra. Áfallið var örþunnt en þétt, varla þykkara en 1-2 mm. Um klukkustund síðar var strókurinn upp úr hljóðdeyfinum orðinn nokkuð hreinn. Að öllum líkindum hefur H2S valdið þessum litabreytingum.

Gífurlegur hávaði braust út þegar holan KJ-36 í Kröflu var hleypt upp í gær. Ásgrímur Guðmundsson verkefnisstjóri yfir rannsóknum í Kröflu segist ekki hafa orðið vitni að öðrum eins látum. Hann og Elfar J. Eiríksson tóku myndirnar.

Ekki fengust öruggar afltölur þar sem Pc-mælistúturinn brotnaði í látunum, en harla líklegt er að aflið hafi verið á bilinu 20-30 MW klukkustund eftir upphleypingu.

Holan er á borplani KJ-34 og var stefnuboruð til norðvesturs. Botn holunnar er í um 1 km fjarlægð frá holutoppi í láréttri fjarlægð. Síðasti verkdagur borsins Jötuns á holunni var 19. nóvember en þá var henni lokað.