Merkur áfangi í orkumálum á Íslandi náðist í gær. Þrjú tilboð bárust Orkustofnun um sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu.
ÍSOR hefur verið aðalráðgjafi íslenskra stjórnvalda um könnun hafsbotnsins vegna leitar að kolvetnum í jörðu og vinnslu þeirra. Síðan árið 2008 hefur ÍSOR unnið að rannsóknum sem snerta olíu- og gasleit fyrir Orkustofnun og lúta að jarðfræði og söfnun gagna. Orkustofnun eyddi miklum tíma í að kynna útboð sérleyfa til rannsókna og vinnslu kolvetna á Drekasvæðinu og svara spurningum um það mál, m.a. á mörgum ráðstefnum og með því að sækja olíuleitarfyrirtæki heim. Sérfræðingar ÍSOR voru í nánu samstarfi við Orkustofnun á þessum tíma og veittu upplýsingar sem snerta olíuleit og kynningu og var t.d. komið á góðu sambandi við norsku Olíustofnunina og Jarðfræðistofnun Noregs með það að markmiði að auka þekkingu á Jan Mayen-hryggnum sem hugsanlegu olíuvinnslusvæði.
Nánar má lesa um útboðið á vef Orkustofnunar.