[x]
3. júní 2008

Óbeinar jarðskjálftamælingar

Frá því Suðurlandsskjálftinn reið yfir þann 29. maí hafa starfsmenn ÍSOR verið að rannsaka áhrif jarðskjálftans á borholur, jarðhitakerfi og grunnvatnsstöðu. Slíkar athuganir gáfu miklar upplýsingar um eðli jarðskjálftanna árið 2000.

Hér er dæmi um að ýmislegt annað og stundum óvænt getur ratað inn í gagnasöfnunartækin þegar verið er að fylgjast með breytingum í vatnsborði og hita í borholum. Myndin hér að neðan er úr sambyggðum þrýstiskynjara og hitamæli, sem dvalið hefur í vetur niðri í holunni HN-2, sem er í Svínahrauni nærri gömlu Þrengslavegamótunum. Þarna fer fram fyrsti áfangi af umfangsmikilli ferilefnaprófum, sem gerð er til að afla upplýsinga í tengslum við förgun CO2 frá Hellisheiðarvirkjun í jörð niður. Eins og sést kemur Suðurlandsskjálftinn mætavel fram í mæligögnunum. Blái ferillinn á myndinni sýnir breytingar í vatnsborði með tíma en sá rauði breytingar í hita. Við stóra jarðskjálftann rís vatnsborð í holunni snögglega um rúma tvo metra en fellur svo hratt aftur í fyrstu uns fyrra vatnsborði er náð um tveimur dögum síðar. Jafnframt sést að hiti í holunni hækkar örlítið um leið og vatnsborðs hækkkunin verður. Niðurstöður rannsóknanna verða birtar á vef ÍSOR um leið og þær liggja fyrir, vonandi á næstu dögum.

Suðurlandsskjálftinn sést greinilega úr mælitæki úr borholu HN-2
Skýringar við myndina:

A. Dæling hafin úr mæliholunni HN-4 þann 28. maí.
B. Suðurlandsskjálfti  ríður á 29. maí og vatnsþrýstingur eykst á svæðinu.
C. Þrýstingur eykst um 0,2 bar á mæli; vatnsborð hækkar um 2 metra.
D. Vatnshiti í holunni hefur verið að lækka en það truflast við skjálftann.
E. Vatnsborðið jafnar sig fljótt og sígur næstum í sömu hæð og fyrr var.
F. Vatnsborð lækkar hægt og bítandi með smátruflunum vegna eftirskjálfta.
G. Mælitækið var dregið upp úr vatninu fyrir hádegi þann 2. júní.