[x]
12. febrúar 2004

Nýtt rannsóknatæki.

 

Ný rafeindasmásjá, sem er að hluta til í eigu Íslenskra orkurannsókna, hefur verið sett upp á Iðntæknistofnun.  Smásjáin er af gerðinni Leo Supra 25 og er mjög öflug; mesta stækkun er meira en milljónföld þannig að greina má hluti sem eru nokkrir nanómetrar að stærð.  Smásjáin er bæði búin nemum fyrir “backscatter” og “secondary” rafeindir en þær fyrrnefndu veita upplýsingar um efnasamsetningu en þær síðarnefndu sýna smáatriði á yfirborði sýnisins.  Að auki hefur verið komið fyrir EDS efnagreiningarbúnaði á smásjánni þannig að hægt er að efnagreina aðalefni í mjög smáum sýnum með svipaðri nákvæmni og í örgreini.  Á ISOR er fyrirhugað að nota rafeindasmásjána m.a. við rannsóknir á míkrótextúr í móbergstúffi og við athuganir á efnasamsetningu og myndunarháttum útfellinga í borholum á Reykjanesi.  Þráinn Friðriksson hefur umsjón með smásjánni fyrir hönd ÍSOR og þeir sem vilja nota hana geta leitað til hans.
 
Myndin sýnir muninn á “backscatter” og “secondary electron” myndum úr nýju rafeindasmásjánni.  Myndin til vinstri er “backscatter” mynd og mismunandi efnasamsetning kemur fram sem mismunandi grátónar.  Myndin til hægri er “secondary electron” mynd af sama svæði og sýnir smáatriðin í gerð yfirborðsins skýrar en myndin til vinstri.  Sýnið er af útfellingum úr holu 9 á Reykjanesi og er stækkunin um 3500 föld.