[x]
27. mars 2020

Nýtt rannsóknarverkefni

ÍSOR er þátttakandi í nýju evrópsku rannsóknarverkefni sem nefnist REFLECT. Í þessu verkefni er sjónum beint að sjálfum jarðhitavökvanum og eðli hans. Reynt verður að finna lausnir á hinum ýmsu efnafræðivandamálum sem upp kunna að koma á vinnslustigum jarðhitans. Markmið verkefnisins er að auka skilvirkni í allri jarðhitastarfsemi og gera jarðhitavinnslu sem hagkvæmasta þannig að hægt verði að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti. Þáttur ÍSOR snýr einkum að því að athuga hvernig hægt er að taka efnasýni úr jarðhitavökva á miklu dýpi (3-5 km) þar sem  hitastig og þrýstingur er mun meiri en áður hefur verið unnið með.

Samtals taka 14 aðilar þátt í þessu verkefni og þar af eru þrjár rannsóknarstofnanir, ein evrópsk samtök, fjórir háskólar og þrjú fyrirtæki. Íslensku þátttakendurnir eru tveir en auk ÍSOR tekur Landsvirkjun einnig þátt í verkefninu. Steinþór Níelsson, teymisstjóri jarðfræði, er verkefnisstjóri af hálfu ÍSOR en þýska jarðvísindastofnunin, GFZ, hefur yfirumsjón með verkefninu. Verkefnið er til þriggja ára og það er styrkt af rannsóknaráætlun Evrópusambandsins – Horizon 2020.

Nánar má lesa um verkefnið hér á ensku, eins verður hægt að fylgjast með framvindu þess á samfélagsmiðlum:

LinkedIn: reflect-project

Twitter:   reflect_h2020