[x]
23. nóvember 2017

Nýtt jarðhitaorkuver á Azoreyjum

Nýtt orkuverk á Terceira á Azoreyjum var tekið í notkun mánudaginn 20. nóvember 2017. Um er að ræða 3,5 MW tvívökva (binary) orkuver frá Exergy sem nýtir háhita úr jarðhitasvæðinu Pico Alto. ÍSOR tók þátt í undirbúningi orkuversins með Electricidade dos Açores (EDA), raforkufyrirtæki Azoreyja. Hér að neðan er stiklað á stóru í þeim undirbúningi.

Verkefnið var styrkt af EEA uppbyggingarsjóði, sem Ísland, Noregur og Lichtenstein standa að, og við vígsluna voru viðstaddir nokkrir aðilar frá Íslandi, m.a. Steinunn Hauksdóttir yfirverkefnisstjóri ÍSOR. Hluti af þeim styrk var nýttur til þess að halda nokkur tveggja vikna námskeið á mismunandi sérfræðisviðum sem tengjast jarðhitanýtingu og sáu sérfræðingar hjá ÍSOR að mestu um þá kennslu. Hægt er að lesa nánar um námskeiðin og fá frekari fróðleik um jarðfræði Azoreyja í fréttum á vef ÍSOR.
 
Árið 2012 tók ÍSOR þátt í að meta yfirborðsrannsóknir, hugmyndalíkan og niðurstöður borana en Jarðboranir boruðu þær holur á árunum 2007-2009 undir stjórn GeothermEx.

Á árunum 2013 og 2014 voru svo skipulagðar langtíma afkastamælingar á holunum á Terceira og tók ÍSOR þátt í undirbúningi og framkvæmd þeirra. Í framhaldi af þessum prófunum hófst bygging orkuvers og byggði hönnun þess á niðurstöðum ÍSOR og samstarfsaðilanna EDA og GeothermEx.

Þá tók ÍSOR þátt í vinnu við að uppfæra hugmyndalíkan af jarðhitasvæðinu við Pico Alto (Terceira) 2015-2017 og koma með tillögur að staðsetningu nýrra borholna á svæðinu. Reiknað er með að þær boranir fari fram 2018 eða 2019 en stefnt er að stækkun virkjunarinnar í 10 MW.

ÍSOR og EDA unnu saman við hluta rannsóknarverkefnisins IMAGE sem styrkt var af FP7-rammaáætlun ESB. Sá hluti fólst í þróun á verkferlum við gerð þrívíddarjarðfræðilíkans og var jarðhitasvæðið Pico Alto á Terceira notað í því verkefni. Niðurstöður voru m.a. birtar í M.Sc. ritgerð Unnar Þorsteinsdóttur, jarðfræðing, ágrip má nálgast í gegnum vefsíðu Háskóla Íslands. 
 
ÍSOR óskar EDA til hamingju með þetta fyrsta jarðhitaorkuver á Terceira-eyju.
Á myndunum er m.a. íslenska sendinefndin sem var viðstödd opnun orkuversins.