Skip to content

Nýtt jarðfræðikort af Vesturgosbelti landsins

Nýtt jarðfræðikort af Vesturgosbelti landsins í mælikvarðanum 1:100 000 hefur verið gefið út. Það nær yfir hraunasvæðin norðan Þingvallavatns og allt norður yfir Langjökul. Til vesturs teygir það sig yfir Arnarvatnsheiði og til austurs yfir Hreppafjöll. Hér má nálgast pdf-útgáfu af kortinu sem mun svo birtast á kortavefsjám stofnananna ÍSOR http://jardfraedikort.is/ og NÍ https://jardfraedikort.ni.is/ sem unnu verkið.

Jarðfræðikortið er hluti af átaksverkefni í jarðfræðikortlagningu Íslands sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið (UAR) hefur staðið að síðan 2018 í samtarfi við Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ). Á meðal náttúrperlna á kortinu eru Gullfoss, Geysir, Laxárgljúfur, Skjaldbreiður, Hallmundarhraun, Hraunfossar, Eiríksjökull og Prestahnúkur.

Berggrunni svæðisins, sem er að mestum hluta móberg og hraunlög, er skipt í nokkra aldurshópa. Elstu jarðlög á kortinu er frá síð-míósen og um 5,5 milljón ára. Nútímahraun á svæðinu eru 25 og eru þau greind í fjóra aldursflokka með hjálp gjóskulaga. Elstu hraunin eru yfir 10.000 ára gömul. Hallmundarhraun er eina sögulega hraunið á Vesturgosbeltinu. Hraunið á upptök í stórum gíg upp undir norðanverðum Langjökli við Jökulstalla, sem á síðari árum hefur fengið nafnið Hallmundur. Hallmundarhraun er eitt stærsta hraun landsins frá sögulegum tíma, um 185 km2 að flatarmáli. Það er talið vera frá fyrri hluta 10. Alda, rann tæpa 50 km frá upptökum til vesturs og olli tjóni í byggð. Hraunið er mjög hellaauðugt og er þar að finna lengstu hraunhella landsins, þeirra frægastur Surtshellir. Jarðhiti og lindir eru sýnd á kortinu ásamt helstu dráttum höggunar og jökulhörfunar.

Meðal nýrra athugana á síðustu árum sem koma fram á kortinu eru ummerki um megineldstöð í Hrútafirði, jarðhitauppspretta við Sultafit, nýjar aldursgreiningar á nútímahraunum og áður óþekktir hraunhólmar í Hallmundahrauni. Væntanleg er grein í Náttúrufræðingnum eftir Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðing á ÍSOR, um Hallmundarhraun.

Jarðfræðikortið af Vesturgosbeltinu byggir að hluta á eldri kortum, áður óbirtum gögnum og kortum í stærri mælikvarða sem birst hafa í greinargerðum og skýrslum ÍSOR, NÍ og Orkustofnunar, ásamt völdum tímaritsgreinum. Þar vegur þyngst kort Sveins P. Jakobssonar jarðfræðings af Vesturgosbeltinu.

Jarðfræðingarnir Birgir V. Óskarsson, Ögmundur Erlendsson, Robert Alexander Askew, Árni Hjartarson, Magnús Á . Sigurgeirsson og Skafti Brynjólfsson unnu að gerð kortsins. Kortahönnuðir eru Anette Theresia Meier, Lovísa Ásbjörnsdóttir, Albert Þorbergsson og Gunnlaugur M. Einarsson.