[x]
12. janúar 2015

Nýr ráðherra í heimsókn

Vigdís Harðardóttir tók á móti Sigrúnu á rannsóknarstofu ÍSOR. Ljósmynd Brynja Jónsdóttir.Sigrún Magnúsdóttir, nýr umhverfis- og auðlindaráðherra, heimsótti ÍSOR í morgun og kynnti sér starfsemina. Heimsóknin hófst með því að Sigrún Traustadóttir, stjórnarformaður ÍSOR, bauð gesti velkomna og Ólafur G. Flóvenz forstjóri kynnti starfsemina. Í tilefni af heimsókn ráðherra var Sigrúnu afhent nýtt berggrunnskort af Íslandi sem ÍSOR var að gefa út. Kortið sýnir berggrunn, bergtegundir og aldur bergs og dregur fram stærstu drættina í jarðfræði landsins og sýnir á hvaða jarðsöguskeiðum hinir ýmsu hlutar berggrunnsins mynduðust, sjá nánar um jarðfræðikort hér.

Sigrún gekk einnig um stofnunina og ræddi við starfsfólk um hafréttarmál, hafsbotnsrannsóknir, kortlagningu og borholujarðfræði. Efnarannsóknarstofan var einnig skoðuð sem og borholumælingabílar ásamt tækjabúnaði þeirra.

Með í för ráðherra voru þær Sigríður Auður Arnardóttir ráðuneytisstjóri, Þórunn Elfa Sæmundsdóttir ritari, Ingveldur Sæmundsdóttir aðstoðarmaður og Herdís Helga Schopka sérfræðingur. ÍSOR þakkar þeim kærlega fyrir komuna í dag.