[x]
28. maí 2010

Nýr öflugur vettvangur jarðhitasamstarfs

Forystumenn átta leiðandi fyrirtækja í jarðhitanýtingu hér á landi skjalfestu á dögunum þann ásetning sinn að starfa saman að jarðvarmaverkefnum erlendis. Orkuveita Reykjavíkur (OR), sem er eitt stærsta jarðhitafyrirtæki heims,  leiðir samstarfið og aðild að því eiga einnig þrjár stærstu verkfræðistofur landsins – Efla, Mannvit og Verkís – Jarðboranir, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og arkitektastofurnar T.ark Teiknistofa og Landslag. Markmið samstarfsins er að opna fyrirtækjunum nýjar leiðir til að koma þekkingu sinni á markað því eftirspurn eftir reynslu á öllum sviðum jarðhitanýtingar fer hratt vaxandi um víða veröld.

Samstarfinu hér á landi er komið á í framhaldi af samstarfsyfirlýsingu OR og japanska stórfyrirtækisins  Mitsubishi Heavy Industries (MHI), sem undirrituð var í Tókýó 15. apríl sl. Í samræmi við hana er OR að skapa breiðan vettvang íslenskrar sérþekkingar í jarðhitanýtingu. Sá vettvangur hefur nú tekið á sig mynd og mun frekari þróun hans velta á þeim verkefnum sem aðilarnir kjósa að koma með inn í samstarfið. Í samstarfsyfirlýsingu OR og MHI og yfirlýsingunni sem undirrituð var er reiknað með að frumkvæði að nýjum verkefnum geti komið frá hvaða aðila samstarfsins sem er, sem þá eigi bakland og stuðning í öðrum aðilum samstarfsins við frekari þróun tækifæranna. Í viljayfirlýsingunni felst ekki skuldbinding aðila um slíka þátttöku heldur er skapaður farvegur fyrir formlegt samstarf sem tekin verður afstaða til í hverju tilfelli fyrir sig.
Frá undirritun viljayfirlýsingar um jarðhitasamstarf.

Yfirlýsinguna undirrituðu (frá vinstri): Finnur Kristinsson, Landslagi, Sturla F. Birkisson, Jarðborunum, Júlíus Karlsson, Eflu, Eyjólfur Árni Rafnsson, Mannviti, Guðlaugur G. Sverrisson og Hjörleifur B. Kvaran, Orkuveitu Reykjavíkur, Sveinn Ingi Ólafsson, Verkís, Ivon Stefán Cilia, T.ark–Teiknistofunni og Ólafur G. Flóvenz, ÍSOR.