[x]
24. júní 2010

Nýr háhitamælir sem mælir 300°C heitt vatn í borholum

Búið er að þróa og smíða háhitamæli sem getur þolað yfir 300°C heitt vatn í borholum án þess að tapa samskiptum við yfirborð.

Hingað til hefur einungis verið hægt að mæla svo heitar holur með minnistólum eða vélrænum mælum, þar sem vitja þarf mælinganna eftir að mælir er endurheimtur úr holu. Nú er hægt að sjá hitamælinguna um leið og mælt er sem er heppilegt þegar snöggra hitabreytinga er að vænta í borholum, sérstaklega við örvunar- eða álagsprófanir.

Það var franska jarðvísindastofnunin BRGM í samstarfi við ÍSOR sem smíðaði hitamælinn. Francois Lebert frá BRGM mun segja frá mælitækinu hjá ÍSOR á morgun á milli kl. 11:30 og 12.

Smíði háhitamælisins er liður í samstarfsverkefninu HiTI, sem hefur það að markmiði að þróa eðlis- og efnafræðilegar aðferðir til að leggja mat á jarðhitakerfi í yfirmarksástandi jarðvarmavatnsins.

Háhitamælir

Háhitamælitækið við borholu KS-01 hjá Kröflu.

Starfsmenn frá BRGM og ÍSOR að koma mælitækinu fyrir.

Starfsmenn frá frönsku jarðvísindastofnuninni BRGM og ÍSOR að koma mælitækinu fyrir í borholunni við Kröflu.