[x]
29. ágúst 2007

Nýlokið er viðnámsmælingum í Vonarskarði.

Arnar Már Vilhjálmsson við TEM- og MT- viðnámsmælingar í Vonarskarði. Ljósmynd Egill Árni Guðnason.Mælingarnar eru liður í grunnrannsókn á svæðinu og tengist rammaáætlun.

TEM viðnámsmælingum er beitt við rannsóknir á háhitakerfum til þess að áætla stærð háhitakerfisins niður á 1 km dýpi. Við fyrstu athugun eins og hér er um að ræða er mælt í grófu neti til að fá fyrstu mynd af svæðinu. Síðan er mælisvæðið stækkað ef niðurstöður sýna þörf á því. Í ár urðu TEM mælingarnar 25 í Vonarskarði.
MT viðnámsmælingar skynja viðnám jarðar niður á nokkurra kílómetra dýpi. Þeim er beitt með TEM mælingunum til að leita þess að finna líkleg uppstreymissvæði innan háhitakerfisins. NA-SV  prófill með 12 MT mælingum var mældur yfir Vonarskarð í þessari lotu.

Mælingarnar gengu vel í höndum tveggja jarðeðlisfræðinga ÍSOR og 6 sumarmanna, sem allir stóðu sig með stakri prýði þrátt fyrir volk og basl á stundum.