[x]
27. apríl 2007

Ný vinnsluhola við Grafarlaug fyrir Rarik og hitaveitu í Dalabyggð

Horft yfir borsvæðið við Grafarlaug.Jarðborinn Sleipnir frá Jarðborunum hf hefur nýlega lokið borun á vinnsluholu við Grafarlaug í Reykjadal. Verkið var unnið fyrir Rarik vegna hitaveitu í Dalabyggð. Starfsmenn ÍSOR önnuðust ráðgjöf varðandi staðsetningu og hönnun holunnar auk mælinga sem gerðar voru meðan á borun stóð og eftir að henni lauk. Holan var stefnuboruð eftir fóðringardýpi í 250 m. Stefna hennar er til SSV inn undir fjallið ofan við Grafarlaug, nánar tiltekið um 190° og hallinn 20° frá lóðlínu. Holan var boruð í 1493 m (holulengd), en lóðrétt dýpi hennar er um 1430 m. Borun holunnar gekk vel og hitti hún á góðar vatnsæðar á nokkrum stöðum. Stærstu æðarnar eru á 850 – 1000 m dýpi. Hiti þeirra er um 88°C. Í loftdælingu gaf holan rúma 50 L/s við um 100 m niðurdrátt vatnsborðs. Á sama tíma var dælt 11 – 12 L/s úr holu 11 með ca. 75 m niðurdrætti vatnsborðs. Á næstu dögum verða afköst holunnar metin, en eftir borun fór hún fljótlega í sjálfrennsli, 12 – 15 L/s.