[x]
10. ágúst 2005

Ný vinnsluhola Hitaveitu Rangæinga

Í júlíbyrjun lauk borun holu KH-37 á jarðhitasvæðinu í Kaldárholti, sem er annað tveggja jarðhitasvæða sem Hitaveita Rangæinga nýtir.  Orkuveita Reykjavíkur yfirtók rekstur veitunnar í byrjun árs, en holunni var valinn staður af sérfæðingum ÍSOR og boruð af Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða með jarðbornum Trölla.  Borun holunnar gekk vel og varð hún 522 m djúp.  Hola KH-37 er að flestu leyti sambærileg við fyrri vinnsluholuna á svæðinu, holu KH-36.  Hún er samt töluvert öflugri og er áætlað að hún geti afkastað 60 – 70 l/s af 67-69°C vatni með dælu á 80 m dýpi.  Kaldárholt bættist við sem vinnslusvæði Hitaveitu Rangæinga í ársbyrjun 2000 eftir ítarlegar jarðhitarannsóknir, sem höfðu staðið yfir í nokkur ár.  Fram að því hafði Jarðhitasvæðið á Laugalandi í Holtum verið eina vinnslusvæði veitunnar.  Um það leyti stefndi í að Laugalandssvæðið myndi fljótlega hætta að geta staðið undir orkuþörf veitunnar, en afköst þess takmarkast af tregu innstreymi (endurnýjun).  Á Laugalandi fæst þó allt að 100°C heitt vatn.  Með tilkomu holu KH-37 ætti Hitaveita Rangæinga að vera vel í stakk búin til að mæta almennt vaxandi notkun og stækkandi veitusvæði, auk þess sem tilkoma holunnar bætir rekstraöryggi veitunnar.