[x]
25. september 2010

Ný vinnsluhola fyrir Hitaveitu Siglufjarðar

Borun nýrrar rannsóknar- og vinnsluholu fyrir Hitaveitu Siglufjarðar lauk mánudaginn 20. september sl. Holan er 702 m djúp og var boruð af jarðbornum Sögu frá Jarðborunum hf fyrir Rarik. Rarik á og rekur hitaveituna á Siglufirði.

Starfsmenn ÍSOR hafa unnið að jarðfræði- og forðafræðirannsóknum auk reglulegs eftirlits með vinnslu hitaveitunnar á Siglufirði á undanförnum áratugum. Þannig hefur á ÍSOR verið unnið líkan af jarðhitakerfinu í Skarðdal og er nýja holan boruð á grundvelli þess. Nýjustu mælingar og prófanir á holunni, staðfesta að hún geti gefið umtalsvert magn af rúmlega 70°C heitu vatni. Er það góð viðbót við heita vatnið sem hitaveitan nýtir úr eldri borholum í Skútudal.

Á undanförnum árum hefur dregið úr afköstum jarðhitakerfisins í Skútudal og er talið líklegt að það sé vegna þess að jarðgöngin milli Skútudals og Héðinsfjarðar hafa skorið sprungur tengdar jarðhitakerfinu. Í framhaldi af því ákvað Rarik að kanna betur jarðhitakerfi í Skarðdal, en þar voru boraðar hitastigulsholur á árunum 1988 til 1990, auk þess sem jarðfræði svæðisins var könnuð og gerðar voru jarðeðlisfræðilegar mælingar. Niðurstöður þeirra athugana sýndu að búast mætti við að í Skarðdal væri 70°C heitt vatnskerfi. Eftir að boraðar voru tvær rannsóknarholur til viðbótar til þess að staðsetja miðju hitafráviks yfir jarðhitakerfinu var nýja vinnsluholan boruð í það. Á 302 m dýpi skar holan öfluga vatnsæð og sýna hitamælingar að hiti vatns í æðinni er tæpar 73°C. Holan var þá fóðruð með stálröri niður á 285 m dýpi og borun haldið áfram. Hún skar síðan fleiri vatnsæðar á bilinu 450 til 500 m og talið er að einnig hafi bæst í hana vatn neðan við 600 m, en það mun skýrast betur þegar yfirstandandi mælingar liggja fyrir.

Afkastaprófun á nýju vinnsluholunni í Skarðdal. Ljósmynd: Haukur Jóhannesson.

Hér hefur Haukur Jóhannesson, jarðfræðingur, sett niður hæl sem staðsetur fyrstu rannsóknar- og vinnsluholu í Skarðdal. Ljósmynd: Sigurður G. Kristinsson.