[x]
7. júní 2006

Ný tækni við borun í Trölladyngju

Nýlega lauk borun 2280 m djúprar rannsóknarholu fyrir Hitaveitu Suðurnesja í Trölladyngju með aðferð sem ekki hefur verið reynd áður hér á landi við borun háhitaholna. Aðferðin er á ensku nefnd "airated drilling" eða "balance drilling" sem kalla má loftborun, sogborun eða jafnvægisborun á íslensku. Með þessari tækni er unnt að stjórna þyngd vökvasúlunnar í holunni og halda þrýstiástandi í jafnvægi þannig að nær allt svarf skilar sér til yfirborðs og lítið sem ekkert fer út í sprungur og glufur í berginu. Sama bortæki eru notuð og við hefðbundna borun en þegar borunin er komin vel af stað er byrjað að blanda þjöppuðu lofti saman við skolvatnið sem dælt er niður í holuna. Vegna hins háa þrýstings (<50 bar) er loftið mjög þjappað og fer lítið fyrir því í blöndunni. Loftblandað vatn fer síðan út um skolstúta krónunnar, kælir og skolar upp svarfi.  Þegar blandan stígur upp og þrýstingur hefur lækkað nægilega (ofan 500-600 m dýpis) fer loftið að þenjast út og veldur það mikilli rúmmálsbreytingu og aukinni uppdrift skolvökvans. Loft, vatn og svarf kemur upp til yfirborðs á miklum hraða og sérstök skilja sér um að aflofta blönduna en svarf er hreinsað úr skolvatninu á sigti og sýni tekin til frekari rannsókna. ÍSOR sá um jarðfræðilegar rannsóknir og staðarval holunnar auk rannsókna, öflunar gagna og úrvinnslu með á borun stóð. Jarðboranir sáu um borunina og var jarðborinn Geysir notaður til verksins. Fyrir miðri mynd er háþrýstiloftpressa frá ADA sem leigð var til verksins.