[x]
13. apríl 2011

Ný stjórn tekur til starfa hjá ÍSOR

Stjórnarskipti urðu hjá ÍSOR nú um mánaðamótin þegar iðnaðarráðherra skipaði nýja stjórn til næstu fjögurra ára.

Jafnframt verður lagt fram lagafrumvarp á þingi þar sem lagt verður til að stjórnarmönnum ÍSOR fækki úr fimm í þrjá. Þetta er gert í sparnaðarskyni en ríkisstjórnin hyggst samtímis leggja af eða fækka í mörgum opinberum stjórnum, ráðum og nefndum.
Í stjórn ÍSOR koma þrír nýir stjórnarmenn en tveir úr gömlu stjórninni halda áfram þar til lagafrumvarpið hefur hlotið samþykki. Hinir nýju stjórnarmenn eru:

Sigrún Traustadóttir viðskiptafræðingur.

Sigrún verður stjórnarformaður ÍSOR.Hún útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1989 með Cand. Oecon próf af fjármála- og stjórnunarsviði. Sigrún hefur undanfarin 15 ár verið framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs Flugstoða /Isavia ohf., áður Flugmálastjórnar Íslands. Í starfi sínu þar tók Sigrún mikinn þátt í stefnumótunarvinnu, endurskoðun fjármála- og gjaldskrármála auk þess að bera ábyrgð á fjárreiðum þessara aðila, þ.m.t. stórum framkvæmdaverkefnum innanlands og vegna alþjóðaflugþjónustunnar. Hún var tengiliður við þá deild Alþjóðaflugmálastofnunarinnar ICAO sem stjórnar fjárreiðum vegna samnings um veitingu flugleiðsöguþjónustu á Íslandi og átti um árabil sæti í fjárhagslegum vinnuhópi á vegum nefndar um rekstur flugleiðsöguþjónustu á Norður-Atlantshafi (NAT/SPG). Sigrún sat í stjórn Flugfjarskipta frá stofnun 2004–2009. Frá hausti 2010 hefur Sigrún starfað sjálfstætt, m.a. við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja.

Sveinbjörn Björnsson, jarðeðlisfræðingur, fyrrum prófessor, háskólarektor og starfsmaður Orkustofnunar.

Sveinbjörn lauk Dipl.-prófi í eðlisfræði frá Tækniskólanum í Aachen árið 1963. Hann hóf starfsferil hjá forverum ÍSOR, Jarðhitadeild Orkustofnunar, 1964. Hann var ráðinn deildarstjóri háhitasvæða 1971–1973 og forstjóri Jarðhitadeildar 1973. Sveinbjörn starfaði við Háskóla Íslands frá árunum 1974–1997, fyrst sem jarðeðlisfræðingur við jarðeðlisfræðideild jarðfræðistofu á Raunvísindastofnun Háskólans. Síðar varð hann deildarstjóri á sömu deild og stjórnarformaður Raunvísindastofnunar 1976–1979. Árið 1978 varð Sveinbjörn prófessor í jarðeðlisfræði við verkfræði og raunvísindadeild. Varadeildarforseti raunvísindadeildar var hann 1983–1985 og forseti 1985–1987 og síðar rektor Háskóla Íslands 1991–1997. Árið 1998 hóf hann aftur störf hjá Orkustofnun og starfaði sem deildarstjóri auðlindadeildar til ársins 2003. Sveinbjörn hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum innanlands sem utan og starfað sem ráðgjafi á sínu sérsviði, m.a. á vegum alþjóðastofnana.

Ingvi Már Pálsson, lögfræðingur hjá iðnaðarráðuneytinu.

Ingvi er Cand.jur frá lagadeild Háskóla Íslands 1997 og var við meistaranám við lagadeild Universiteit van Amsterdam í Hollandi 1999–2000. Hann var lögfræðingur hjá Skipulagsstofnun frá júní 1997 til janúar 1998, fulltrúi hjá sýslumanninum í Reykjavík frá janúar 1998 til ágúst 1999 og lögfræðingur á tekju- og lagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins frá ágúst 2000 til júní 2009. Hann var settur tímabundið í stöðu skrifstofustjóra tekju- og lagaskrifstofu frá 1. október 2006 til 1. febrúar 2007 og var staðgengill skrifstofustjóra frá 1. janúar 2008 til júní 2009. Ingvi Már hefur verið lögfræðingur og staðgengill skrifstofustjóra á orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytis frá júní 2009 og starfandi skrifstofustjóri frá desember 2010.

Úr gömlu stjórninni sitja áfram Guðrún Helga Brynleifsdóttir, lögfræðingur, sem verið hefur stjórnarformaður ÍSOR frá upphafi og Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík.

Þeir sem nú yfirgefa stjórn ÍSOR eru Þórarinn E. Sveinsson, Hákon Björnsson og Jóhannes Pálsson. Eru þeim þökkuð góð og uppbyggileg störf fyrir ÍSOR undanfarin átta ár um leið og nýir stjórnarmenn eru boðnir velkomnir.