[x]
16. september 2019

Ný stjórn hjá ÍSOR

Ný stjórn ÍSOR 2019, frá vinstri: Árni Erla Sveinbjörnsdóttir, Ingvi Már Pálsson, Stefán Guðmundsson, Andrés Skúlason og Þórdís Ingadóttir. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skipað nýja stjórn hjá ÍSOR til næstu fjögurra ára.

Stjórnina skipa:
Þórdís Ingadóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík
Þórdís verður stjórnarformaður ÍSOR. Hún hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir stjórnvöld, háskóla og félagasamtök. Má þar nefna setu í bankaráði Landsbankans hf., dómstólaráði, endurupptökunefnd, valnefnd Bankasýslu ríkisins, siðanefnd Landbúnaðarháskóla Íslands, siðanefnd Háskólans á Bifröst, stjórn Vísindafélags Íslands og stjórn Landssamtaka Þroskahjálpar. Þórdís er virkur rannsakandi á sviði alþjóðalaga og hefur hún stýrt og tekið þátt í fjölda alþjóðlegra rannsóknarverkefna. Þá hefur hún birt tugi fræðigreina á sviði lögfræði, jafnt erlendis sem hérlendis.

Andrés Skúlason, forstöðumaður og fyrrverandi oddviti, Djúpavogi
Andrés hefur frá árinu 1994 verið forstöðumaður íþróttamiðstöðvar Djúpavogshrepps. Hann hefur gegnt fjölmörgum ábyrgðar- og félagsmálastörfum á Austfjörðum. Hann var oddviti Djúpavogshrepps á árunum 2002-2018. Hann hefur setið í fjölmörgum stjórnum og ráðum á síðustu tveimur áratugum og situr m.a. í stjórn eftirfarandi félaga: formaður stjórnar fólkvangs á Teigarhorni frá 2013, verkefnastjóri með Teigarhorni frá árinu 2018. Formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands frá apríl 2019. Í stjórn Minjaráðs Austurlands frá 2018 og formaður svæðisfélags Vinstri grænna á Austfjörðum frá 2018.

Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, jarðfræðingur hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands
Árný lauk BS-prófi frá Háskóla Íslands 1979 og doktorsprófi í jarðefnafræði frá Háskólanum í Austur- Anglíu í Bretlandi árið 1984. Á árunum 1984-1986 starfaði hún á Jarðhitadeild Orkustofnunar (nú ÍSOR) við borholujarðfræði og jarðhitaummyndun. Frá 1986 starfað hún við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, sá um rekstur rannsóknarstofu í samsætumælingum á vatni og stundað rannsóknir á grunnvatni, þ.m.t. jarðhitavatni, fornveðurfari með samsætumælingum á djúpkjörnum úr Grænlandsjökli og geislakolsaldursgreiningum á jarð- og fornleifafræðilegum sýnum.

Ingvi Már Pálsson, skrifstofustjóri í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu
Ingvi er cand.jur frá lagadeild Háskóla Íslands 1997 og lauk LL.M. meistaranámi frá lagadeild Universiteit van Amsterdam í Hollandi árið 2000. Hann var lögfræðingur hjá Skipulagsstofnun frá júní 1997 til janúar 1998, fulltrúi hjá sýslumanninum í Reykjavík frá janúar 1998 til ágúst 1999 og lögfræðingur og staðgengill skrifstofustjóra á tekju- og lagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins frá ágúst 2000 til júní 2009. Frá 2009 var Ingvi lögfræðingur á orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og var skipaður skrifstofustjóri þar 2011. Við sameiningu ráðuneyta 2012 fór Ingvi í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og hefur frá 2012 verið skrifstofustjóri á skrifstofu orku-, iðnaðar- og almennra viðskiptamála, auk þess að vera staðgengill ráðuneytisstjóra. Ingvi sat áður í stjórn ÍSOR á tímabilinu 2011 til 2015.

Stefán Guðmundsson viðskiptafræðingur, skrifstofustjóri umhverfis- og auðlindaráðuneytis
Stefán er menntaður viðskiptafræðingur með kandídatspróf í stjórnun frá Háskóla Íslands auk þess að hafa sótt fjölda námskeiða á sviði viðskiptafræði og stjórnunar. Hann hefur starfað sem forstöðumaður rekstrar- og mannauðssviðs Matvælastofnunar (áður Landbúnaðarstofnunar) frá árinu 2006. Áður starfaði hann fyrir KB banka, Ljósavík og Lykilhótel. Hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í gegn um tíðina, m.a. setið í verkefnastjórn um rafrænt samfélag, í bæjarstjórn sveitarfélagsins Ölfus, í heilbrigðisnefnd Suðurlands og sem formaður fimleikadeildar Ungmennafélagsins Þórs svo fátt eitt sé nefnt. Frá árinu 2014 hefur Stefán verið skrifstofustjóri á skrifstofu fjármála og rekstrar í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Stefán kom í stjórn ÍSOR 2015.

Stjórnin er öll skipuð nýjum stjórnarmönnum fyrir utan Stefán Guðmundsson, sem sat í fyrri stjórn, og Ingva Má Pálsson sem var í stjórn ÍSOR á árunum 2011-2015.

Úr stjórn ÍSOR ganga þau:


Sigrún Traustadóttir viðskiptafræðingur.
Sveinbjörn Björnsson, eðlisfræðingur og fyrrverandi háskólarektor.
Ásta Björg Pálmadóttir viðskiptafræðingur, fyrrverandi sveitastjóri í Skagafirði.
Ingveldur Sæmundsdóttir viðskiptafræðingur, aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra.

Sigrún og Sveinbjörn sátu í stjórn í átta ár en aðrir í fjögur ár.

ÍSOR þakkar fráfarandi stjórn kærlega fyrir einkar gott og ánægjulegt samstarf á liðnum árum. Um leið býður ÍSOR nýja stjórnarmenn velkomna.