[x]
3. október 2006

Ný jarðhitahola í Hrolleifsdal í Skagafirði dæluprófuð

Hola SK-28 í Hrolleifsdal var boruð af jarðbornum Trölla frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða haustið 2005 fyrir Skagafjarðarveitur ehf. Áður höfðu Íslenskar orkurannsóknir framkvæmt jarðhitarannsóknir á svæðinu sem eru grundvöllur staðsetningar holunnar. Hún er 973 m djúp og með góða vatnsæð á tæplega 900 m dýpi. Holan hefur verið dæluprófuð síðan í lok ágúst. Tilgangurinn er að meta hvort hola SK-28 og jarðhitakerfið sem hún tengist geti staðið undir hitaveitu fyrir Hofsós og nágrenni. Áformað er að holan verði prófuð áfram næstu tvo mánuðina þannig að lokaniðurstaða liggur ekki enn fyrir. Holan virðist þó standa undir þeim væntingum sem til hennar hafa verið gerðar. Hún gefur um 15 l/s með hóflegri vatnsborðslækkun. Einn þáttur prófunarinnar felst í því að kanna efnasamsetningu vatnsins og þá einkum nýtingareiginleika þess. Þann 23. september var tekið sýni af vatninu og benda fyrstu niðurstöður til þess að vatnið sé ágætlega hæft í hitaveitu. Hiti þess mældist 84,1°C og í því er vottur af brennisteinsvetni sem hentar vel til að eyða súrefni sem getur komist í vatnið, t.d. um miðlunartanka.