[x]
6. apríl 2017

Ný jarðfræðikortavefsjá

ÍSOR hefur opnað nýja jarðfræðikortavefsjá þar sem hægt er að skoða jarðfræðikort af Íslandi í mælikvarðanum 1:600 000 og af Suðvesturlandi og Norðurgosbeltinu í mælikvarðanum 1:100 000. Í kortavefsjánni eru allar helstu jarðmyndanir sýndar. Einnig má sjá misgengi, gjár, hveri, lindir o.fl. jarðfræðileg fyrirbæri. Upplýsingar eru um hraun og berg á jarðfræðikortunum af Suðvesturlandi og Norðurgosbeltinu sem og upplýsingar um jarðfræðilega markverða staði.

Jarðfræðikortin byggjast á fjölmörgum kortum í mælikvörðum 1:20 000 – 1:50 000, sem unnin hafa verið fyrir ýmsa verkkaupa ÍSOR og forvera þess, og á nýjum rannsóknum síðustu ára.

Vonast er til þess að jarðfræðikortavefsjáin verði öllum þeim sem unna íslenskri náttúru til gagns og gamans, hvort sem um almenning, fræðimenn, skólafólk eða ferðamenn er að ræða. Vefsjáin er í stöðugri þróun og ný gögn og upplýsingar munu bætast við. Hér er hægt að komast beint inn á vefsjána, jardfraedikort.is

Jarðfræðikortavefsjá