[x]
30. apríl 2014

Ný heitavatnshola á Möðruvöllum í Kjós

Prufudæling úr MV-24 þann 28. apríl. Jarðborinn Nasi frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða stendur á holunni. Töluverður mökkur liðast frá gufuskiljunni enda er vatnið heitt. Sandfell í baksýn. Ljósmynd Þórólfur H.Hafstað.Nýlega lauk borun á nýrri heitavatnsholu á Möðruvöllum í Kjós. Nýja holan heitir MV-24 og varð 1704 m djúp. Eftir að borstangir höfðu verið dregnar upp var gerð stutt afkastamæling með loftblæstri. Niðurstaðan var að í sjálfennsli gæfi holan tæpa 20 L/s en allt að 40 L/s með 120 m  niðurdrætti. Vatnið er sjóðandi heitt enda er hiti við holubotn um 140°C. Þessi árangur verður að teljast nokkuð góður fyrir áformaða hitaveitu í Kjósinni.

Gengið hefur á ýmsu við þetta borverk. Upphaflega áætluðu ráðgjafar (ÍSOR) að nægt vatn mundi fást á innan við 1000 m dýpi og hitinn yrði ríflega 80°C. Þá var tekið mið af árangri við borun fyrri vinnsluholunnar, sem er í um 800 m fjarlægð. Í ljós kom að nýja holan gaf sáralítið vatn þegar borað hafði verið niður í 1010 m en hitinn í holubotni var þá hins vegar yfir 130°C. Hitaferill holunnar benti til að hún hefði náð niður í djúpstæðara og jafnframt heitara jarðhita kerfi en menn hafði órað fyrir. Þess vegna var borað dýpra og síðan aftur dýpkað svolítið og enn meir. Ekkert örlaði samt á vatninu lengi vel en hitaþróunin var í samræmi við væntingar ÍSOR-manna og þess vegna var borun fram haldið. Þegar borað hafði verið niður í 1580 m var ástandið enn við það sama; upp úr holunni vætlaði tæplega 1 L/s af um 80°C heitu vatni og það er kölluð ærmiga í Kjósinni.
Hitaferillinn benti samt sem áður til að enn væri vatnsvon í holunni.

Holan var orðin miklu dýpri en upphaflega var gert ráð fyrir. Þrátt fyrir að nokkur árangur hefði náðst með örvunaraðgerðum vildu menn kanna til þrautar hvort úr henni fengis meira. Því var úr að bora eins djúpt og hægt væri.
Á þessum endaspretti urðu menn varir við nýjar innrennslisæðar og vaxandi hita í skolvatni. Þegar borað hafði verið í 1704 m var ljóst að ekki yrði dýpra farið því þyngdin á borstrengnum var orðinn ofviða lyftigetu borsins. Ekki var talið ráðlegt að bora dýpra að sinni þess vegna, enda benti flest til að holan hefði lánast. Það hefur nú komið í ljós.