[x]
3. nóvember 2004

Ný goshrina í Vatnajökli

Grímsvötn eru í vestanverðum Vatnajökli og inni í honum miðjum. Þau eru langstærsta jarðhitasvæði landsins og raunar eru kenningar uppi um að Grímsvötn séu mesta jarðhitasvæði í heimi þegar horft er til varmaafls. Jafnvel er talið að aflið sé um 4.500 megavött en til samanburðar má nefna að vinnsla upp úr svæðinu á Nesjavöllum er um 800 megavött. Auk þessa eru Grímsvötn virkasta eldstöð Íslands og er talið að þar hafi gosið á bilinu 50 til 100 sinnum frá því að landið byggðist. Að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings má gera ráð fyrir að ný goshrina sé hafin í Grímsvötnum og því megi búast við nokkuð tíðum gosum í Vatnajökli næstu 60 til 80 árin.