[x]
18. ágúst 2016

Ný og endurbætt útgáfa af jarðfræðikorti af Suðvesturlandi

ÍJarðfræðikort af Suðvesturlandi.slenskar orkurannsóknir (ÍSOR) hafa gefið út endurbætt jarðfræðikort af Suðvesturlandi í mælikvarðanum 1:100 000. Þetta er önnur útgáfa af kortinu en það kom fyrst út árið 2010 og hefur verið uppselt í um ár.

Ýmislegt hefur verið endurskoðað og bætt við í nýju útgáfunni. Á bakhlið kortsins hefur verið bætt við fróðleik um 39 áhugaverða staði og er textinn bæði á íslensku og ensku. Jarðfræðin í kringum Krýsuvík og Selvog var töluvert endurskoðuð og eins var nýjum upplýsingum bætt við á Mosfellsheiði og Esju. Nýjar athuganir leiddu í ljós að hraunið sem Þorlákshöfn stendur á er upprunnið úr Leitum eins og hraunið sem rann ofan í Elliðavog og því rúmlega 5000 ára gamalt en hafði áður verið talið vera um 10 þúsund ára gamalt. Skriðstefna ísaldarjökulsins er jafnframt sýnd á þessu nýja korti.

Jarðfræðikortið byggist á fjölmörgum kortum í mælikvörðum 1:20 000 – 1:50 000 sem unnin hafa verið fyrir ýmsa verkkaupa ÍSOR og forvera þess og nýjum rannsóknum síðustu ára. Elstu jarðlögin á kortinu eru rúmlega 4 milljóna ára gömul, í Akrafjalli og þau yngstu frá Reykjaneseldum 1211–1240. Alls eru á kortinu um 160 mismunandi hraun sem runnið hafa frá því að ísaldarjökull hvarf af svæðinu. Hraunin hafa verið aldursgreind með ýmsum aðferðum, einkum þó öskulögum, kolefnisgreiningum (C14) og afstæðri legu hraunanna.
Þeir jarðfræðingar hjá ÍSOR sem endurskoðuðu kortið eru Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Árni Hjartarson, Ingibjörg Kaldal og Sigurður Garðar Kristinsson.
Um kortagerð sá Guðrún Sigríður Jónsdóttir. Orkuveita Reykjavíkur styrkti útgáfuna.

Hægt er að nálgast kortið í bókaverslun Eymundsson og í afgreiðlsu ÍSOR að Grensásvegi 9 er hægt að fá kortið óbrotið.