[x]
19. júní 2018

Ný afkastamikil vinnsluhola á Hjalteyri

Jarðhitasvæðið við Hjalteyri hefur verið mikilvægasta vinnslusvæði Norðurorku á þessari öld. Jarðhitasvæðið var kortlagt, m.a. með hitastigulsborunum, um aldamótin en kveikjan að leitinni var borun sjótökuholu vegna fiskeldis sem þá var rekið á Hjalteyri. Stóð Arnarneshreppur að leitinni framan af með ráðgjöf og rannsóknum ÍSOR.

ÍSOR hefur frá upphafi veitt Arnarneshreppi og síðan Norðurorku vísindalega ráðgjöf, fyrst vegna leitarinnar, og síðan í tengslum við rekstur jarðhitsvæðisins. Elsta vinnsluholan á svæðinu, HJ-19, var boruð sumarið 2002. Hún var mjög vel heppnuð og sýndi að svæðið var jafnvel öflugra en menn höfðu þorað að vona. Annarri vinnsluholu var bætt við í ársbyrjun 2005 og var hún hugsuð fyrst og fremst sem varahola. Með vaxandi heitavatnsnotkun á þjónustusvæði Norðurorku hefur þróunin orðið sú að nota þarf báðar holurnar allan ársins hring enda stendur Hjalteyrarsvæðið undir meira en helmingi af heitavatnsnotkun Akureyrar og nágrannabyggða. Því var orðið aðkallandi að bora eina vinnsluholu til viðbótar svo að Norðurorka hefði ávallt varaholu tilbúna til að dæla úr kerfinu ef t.d. dæla í annarri hinna holnanna skyldi bila. 

Þriðja vinnsluholan, HJ-21, var boruð nú í vor. Hola HJ-21 er óvenjuleg að því leyti að vinnsluhluti holunnar er boraður með 12 ¼" krónu en vinnsluhluti holna HJ-19 og HJ-20 er boraður með 8 ½" krónu. Nýja holan er sem sagt mun víðari en hinar eldri og getur flutt mun meira vatn til yfirborðs. Holan var prófuð með sk. blástursprófi sl. föstudag (15. júní). Niðurstöður prófsins sýna að holan er í mjög góðu sambandi við jarðhitakerfið og að vinnslustuðull hennar er með því hæsta sem sést hefur fyrir lághitaholu á Íslandi. Þetta er mjög markverður árangur og lofar mjög góðu fyrir holuna. Niðurstöður langtímaprófana með dælu munu gefa ítarlegri upplýsingar um hegðun holunnar og svæðisins í heild.

Það var jarðborinn Sleipnir frá Jarðborunum sem boraði holu HJ-21 en hann hefur verið notaður við borun allra vinnsluholnanna á Hjalteyri. Borverkið gekk mjög vel en það hófst þann 6. maí sl. og lauk á 1298 m dýpi þann 14. júní sl.

Bjarni Gautason, deildarstjóri ÍSOR á Akureyri, stýrði rannsóknum og ráðgjöf ÍSOR í tengslum við borverkið og undirbúning þess. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Frá blástursprófun HJ-21 þann 15. júní 2018. Mælikarið er yfirfullt af vatni úr holunni. Hiti vatnsins er ríflega 87°C. Aðalæðar holunnar eru fyrir neðan 1000 m dýpi. Loftskilja fyrir vinnsluholurnar er í baksýn. Ljósmynd Unnur Þorsteinsdóttir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jarðborinn Sleipnir að bora holu HJ-21 þann 8. maí 2018. Ljósmynd Bjarni Gautason.