[x]
4. ágúst 2005

(null)

Tvær aðrar laugar eru með nöfnum. Skammt sunnan við Biskupslaug var svonefnd Vinnufólkslaug (öðru nafni Hjúalaug) en hún var grafin út fyrir nokkrum árum. Hitinn í henni var aðeins 18°C. Þar baðaði sig hinn óæðri lýður. Það hefur því farið betur um hina geistlegu menn en húskarla og griðkonur. Þessar laugar eru skammt innan við nokkuð háan, áberandi hól sem nefnist Laugarhóll. Jarðhiti er nokkuð víða í kringum og norðan við hólinn. Um 300 metrum sunnar eru margar laugar á allstóru svæði (25x25 m) og heitir ein þeirra Kindalaug. Jarðhitinn er tengdur norðaustlægu misgengi sem gengur þvert yfir dalinn og er það sigið um 80 metra austanmegin. Skammt innan við bæinn er gil sem gengur upp í Dauðaskál og nefnist það Húsatóftagil. Í um 450 metra hæð í gilinu og skammt innan við það er jarðhiti á tveimur stöðum. Þessi jarðhiti er í um 250 metra hæð yfir dalbotninum. Árið 1978 var boruð liðlega 600 m djúp hola á Reykjum (RH-01) og heppnaðist vel. Upp úr henni flæddu 25 l/sek af um 56,5°C heitu vatni og þrýstingur var um 25 bör sem er með því hæsta sem mælst hefur á lághitasvæði og samsvarar hæðarmuninum á holunni og jarðhitanum í Húsatóftagili. Vatninu var svo veitt um einangraða, 6-7 km langa stállögn að Hólum í Hjaltadal. Hiti vatnsins hefur hækkað nokkuð og er nú um 60°C.