[x]
20. júní 2016

Námskeið á vegum Jarðhitaskólans í Eþíópíu

Benedikt Steingrímsson og Þorsteinn Egilson fengu að skilnaði gjafir í lok námskeiðsins um borholumælingar. Um helgina lauk tveggja vikna námskeiði í borholumælingum, forðafræði og prófunum  í borholum í Eþíópíu.

Námskeiðið var fyrir starfsmenn Jarðfræðistofnunar Eþíópíu (Geological Survey of Ethopia (GSE)) og Landsvirkjun Eþíópíu (Geothermal Sector Development Project of Ethiopian Elelectric Power (EEP)). Alls sóttu 27 starfsmenn námskeiðið sem var haldið í höfuðborginni Addis Ababa dagana 6.-18. júní. Verkleg þjálfun fór fram á jarðhitasvæðinu Aluto Langano. Jarðhitasérfræðingar ÍSOR þeir Benedikt Steingrímsson og Þorsteinn Egilson, sáu um kennslu og þjálfun.

Námskeiðið var haldið á vegum Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og styrkt af utanríkisráðuneyti Íslands og Norræna þróunarsjóðnum. Þetta er liður í þróunaraðstoð við lönd er liggja að Sigdalnum mikla í Austur-Afríku, sem er gríðarmikið misgengi á plötuskilum Afríku-, Arabíu- og Indlandsflekans, og finnst töluverður jarðhiti þar. Eþíópía er eitt þessara landa. Tilgangurinn er að efla rannsóknir og uppbyggingu á sviði jarðhitanýtingar með það að markmiði að auka möguleika til að framleiða sjálfbæra og hreina orku.

 

 

 Þátttakendur, ásamt leiðbenendum, á námskeiðinu um borholumælingar forðafræði og prófanir í borholum í Eþíópíu.