[x]
5. nóvember 2009

Námskeið í yfirborðsrannsóknum á jarðhitakerfum, jarðeðlisfræði og jarðefnafræði

Námskeiði á vegum Jarðhitaskólans og LaGeo í El Salvador „Short Course on Surface Exploration for Geothermal Resources“ er nýlokið og tókst í alla staði mjög vel. Það var haldið á jarðhitasvæðinu í Ahuachapan í vesturhluta landsins og Santa Tecla, útborg  San Salvador, dagana 17.-30. október.
Námskeiðið var tileinkað yfirborðsrannsóknum á jarðhitakerfum,  jarðeðlisfræði og  jarðefnafræði. Fyrri vikuna voru gerðar ýmsar jarðeðlisfræðilegar mælingar (viðnáms-, þyngdar- og segulmælingar auk hitamælinga í jarðvegi) og jarðefnafræðilegar mælingar (m.a. söfnun sýna). Þá var unnið úr mæliniðurstöðum. Tveir starfsmenn ÍSOR, Gylfi Páll Hersir og Þráinn Friðriksson, sáu um þennan hluta námskeiðsins ásamt starfsbræðrum þeirra frá La Geo í El Salvador og ICE í Kosta Ríka. Seinni vikuna voru haldnir fyrirlestrar og bættust þá í hópinn Benedikt Steingrímsson og Knútur Árnason frá ÍSOR og Lúðvík S. Georgsson frá Jarðhitaskólanum auk fyrirlesara frá löndum Mið-Ameríku. Þátttakendur á  námskeiðinu voru um 30 talsins frá Mið-Ameríkulöndunum fimm auk tveggja landa í Karíbahafi, Nevis og Dómeníku. Síðasta daginn var þátttakendum boðið á „Central American Geothermal Workshop“ á vegum IGA, Alþjóða jarðhitasambandsins.

Námskeiðið er liður í framlagi Íslands til þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Gylfi Páll Hersir leiðbeinir þátttakendum við hitamælingar.