[x]
18. nóvember 2008

Námskeið í jarðhitafræðum í Afríku

Þátttakendur á námskeiðinu ásamt leiðbeinendum.Námskeiði á vegum Jarðhitaskólans og KenGen í Kenýa „Short Course III on Surface Exploration for Geothermal Resources“ er nýlokið og tókst í alla staði mjög vel. Námskeiðið var tileinkað yfirborðsrannsóknum á jarðhitakerfum, með fyrirlestrum um jarðfræði, jarðeðlisfræði, jarðefnafræði og umhverfisfræði. Einnig var áhersla á auðlindamat,  jarðhitaborun og vettvangsferðir. Þrír starfsmenn ÍSOR kenndu á námskeiðinu, þeir Halldór Ármannsson, Knútur Árnason og Kristján Sæmundsson. Aðrir kennarar voru Lúðvík Georgsson frá Jarðhitaskólanum og 19 starfsmenn frá KenGen. Fram kemur á vef Jarðhitaskólans að 18 þeirra eru fyrrverandi nemendur Jarðhitaskólans. Námskeiðið var haldið dagana 24.október til 17. nóvember sl. Þátttakendur voru 37 og komu frá 11 löndum Austur-Afríku.

Námskeiðið er liður í framlagi Íslands til þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og er hið fjórða sinnar tegundar. Fyrsta námskeiðið var haldið árið 2005.

Fyrirlestrar og greinar verða gefnar út og verður hægt að nálgast efnið á vef Jarðhitaskólans eftir nokkrar vikur.