[x]
25. nóvember 2019

Námskeið í jarðhitafræðum haldið í Kenía

Þriggja vikna jarðhitanámskeið á vegum Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og KenGen, ríkisorkufyrirtæki í Kenía, er haldið við Naivasha-vatn í Kenía um þessar mundir, 13. nóvember til 3. desember. Þrír sérfræðingar ÍSOR eru meðal leiðbeinenda. Það eru þau Ásdís Benediktsdóttir jarðeðlisfræðingur, Björn S. Harðarson jarðfræðingur og Finnbogi Óskarsson efnafræðingur.

Meginþema námskeiðsins eru yfirborðsrannsóknir við jarðhitaleit, þar sem farið er yfir efnafræði, jarðfræði og jarðeðlisfræði. Nemendur eru m.a. þjálfaðir í jarðfræðikortlagningu, söfnun sýna til efnafræðirannsókna og notkun mælitækja til jarðeðlisfræðirannsókna. Námskeiðið er byggt upp á fyrirlestrum og vettvangsferðum. Því lýkur með hópverkefnum þar sem þátttakendur túlka gögn frá sjö mismunandi jarðhitasvæðum á Íslandi og Kenía.

Þátttakendur eru 38 og koma frá nokkrum Austur-Afríkulöndum, öll með ólíkan bakgrunn og menntun. Þau eru ýmist starfand jarðhitasérfræðingar, koma frá ráðuneytum eða eru nemendur.

Námskeiðið hefur verið haldið með svipuðum áherslum frá árinu 2005, fyrstu árin sem liður í Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og nú Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.