[x]
28. febrúar 2010

Námskeið í forðafræði fyrir frönsku jarðhitastofnunina CFG Services

Fimm daga námskeiði í jarðhitaforðafræði og vinnslueftirliti, sem ÍSOR hefur haldið fyrir frönsku jarðhitastofnunina CFG Services, er að ljúka. Fjórir starfsmenn frá CFG hafa verð hér síðan á þriðjudag og námskeiðinu lýkur á laugardag með heimsókn í Hellisheiðarvirkjun. Þetta er seinna námskeið tveggja slíkra og var fyrri hluti námskeiðsins haldinn í nóvember. Þar var áherslan á borholumælingar og holuprófanir.

Námskeiðið nú samanstóð af almennum fyrirlestrum og sýnikennslu. Fjallað var um jarðhitakerfi og hugmyndalíkön, áhrif vinnslu og niðurrennslis á jarðhitakerfin og aðferðir til að meta vinnslugetu þeirra. Þátttakendurnir fengu m.a. þjálfun í að nota rúmmálsaðferðir (með Monte Carlo reikningum) og þjöppuð líkön til að meta jarðhitakerfin.  Fjallað var um ferilefnaprófanir til að kanna hvernig niðurrennsli dreifist um jarðhitakerfi og einnig hvernig prófanirnar eru framkvæmdar auk úrvinnslu gagna. Einnig var fjallað um hita og þrýsting í blásandi borholum.

Kennarar á námskeiðinu voru Guðni Axelsson, Benedikt Steingrímsson, Kristján Sæmundsson, Sæunn Halldórsdóttir, Þorsteinn Egilson og Þráinn Friðriksson frá ÍSOR auk þess sem Einar Gunnlausson frá Orkuveitu Reykjavíkur var með kynningu. CFG menn fræddu einnig starfsmenn ÍSOR um jarðhitarannsóknir og nýtingu í París og nágrenni og á frönsku eyjunni Gvadelúp í Karabíska hafinu.

Þátttakendur frá jarðhitastofnuninni CFG Services og hluti af leiðbeinendum frá ÍSOR á námskeiðinu í forðafræði.

Þátttakendur frá jarðhitastofnuninni CFG Services og hluti af leiðbeinendum frá ÍSOR á námskeiðinu í forðafræði.