Dagana 16.-20. nóvember var haldið námskeið um prófanir og mælingar á borholum á vegum ÍSOR að beiðni frönsku jarðhitastofnunarinnar CFG Services. CFG Services tengist frönsku jarðfræðastofnuninni BRGM og sérhæfir sig í þjónusturannsóknum á sviði jarðhita.
Hún hefur m.a. staðið fyrir jarðhitarannsóknum og borunum á Bouillante-jarðhitasvæðinu á frönsku eyjunni Gvadelúp í Karíbahafinu, þar sem rekin er 15 MW gufuaflsvirkjun. ÍSOR hefur verið ráðgjafi CFG í verkinu síðustu fimmtán árin, einkum að því er varðar forðafræði, vinnslueftirlit, bortækniráðgjöf og rekstur borholnanna.
Fimm þátttakendur voru á námskeiðinu, tveir vatnajarðfræðingar og þrír verkfræðingar. Námskeiðið fjallaði um prófanir og mælingar á borholum, einkum hita-, þrýsti- og víddarmælingar. Ákveðið var að halda framhaldsnámskeið um ferilprófanir, vinnslueftirlit og almenna forðafræði jarðhitans í byrjun árs 2010.
Dagskrá námskeiðsins má sjá hér að neðan ásamt leiðbeinendum.
- Yfirlit yfir starfsemi ÍSOR, borholumælingar og holuprófanir: Benedikt Steingrímsson
- Notkun ferilefna við rennslismælingar í borholum: Ari Ingimundarson
- Borholumælingatæki, mælingabílar og öryggismál: Peter E. Danielsen
- Hita- og þrýstingsmælingar ásamt túlkun, verklegar æfingar: Þorsteinn Egilson
- Blástursmælingar og afkastaprófanir vinnsluholna og ádælingarpróf, verklegar æfingar: Páll Jónsson
- Heimsókn í Reykjanesvirkjun: Ómar Sigurðsson
- Jarðfræði Íslands: Peter E. Danielsen