[x]
29. janúar 2009

Námskeið í borholujarðfræði á vegum ÍSOR í Níkaragva

Þrír starfsmenn Íslenskra orkurannsókna eru nú í Níkaragva. Meðal verkefna þeirra er kennsla á vikulöngu námskeiði í borholujarðfræði. Þar er farið yfir ýmis atriði varðandi athuganir og mælingar sem gerðar eru meðan á borun stendur, svarfskoðun í víðsjá og bergfræðismásjá og samtúlkun niðurstaðna sem leiðir til líkans af viðkomandi jarðhitakerfi.  Þátttakendur á námskeiðinu eru fjórir starfsmenn orku- og námumálaráðuneytisins (MEM) í Níkaragva og tveir jarðfræðingar sem starfa fyrir PENSA sem rekur virkjun í San Jacinto.
 
Þetta námskeið er þáttur í Jarðhitaverkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) í Níkaragva en ÍSOR er helsti ráðgjafi ÞSSÍ í því verkefni.  Markmið verkefnisins er að byggja upp þekkingu á jarðhitamálum í landinu.  Orku- og námumálaráðuneytið í Níkaragva er gagnaðili ÞSSÍ í verkefninu og beinist það að miklu leyti að því að styrkja getu þess til að sinna sínum lögboðnu skyldum varðandi útboð jarðhitasvæða til vinnslu og eftirlit með jarðhitaleit. Verkefnið beinist einnig að starfsmönnum umhverfisráðuneytisins sem koma að jarðhitanýtingu vegna umhverfisáhrifa.  Þá er þess einnig gætt að bjóða sem flestum heimamönnum að taka þátt í námskeiðum sem boðið er upp á í tengslum við verkefnið, hvort sem þeir starfa hjá einkafyrirtækjum, háskólum eða hjá hinu opinbera. Samskipti og samvinna milli starfsmanna ráðuneytisins og einkafyrirtækja á námskeiðum byggir upp traust milli þeirra og gefur þeim tækifæri til að miðla ólíkri reynslu sín á milli. Þetta er áberandi á því námskeiði sem nú stendur yfir en þar ríkir góður andi og frjóar umræður spinnast yfir smásjánum.

Þátttakendur á námskeiði í borholujarðfræði.

Leiðbeinendur, þau Anette K. Mortensen og Þráinn Friðriksson frá ÍSOR, ásamt þátttakendum á námskeiðinu.

Stjórnendur á námskeiðinu, þau Þráinn Friðriksson og Anette K. Mortensen, ásamt þátttakendum.