[x]
23. nóvember 2006

Námskeið í Afríku og Mið-Ameríku

Nú í gormánuði og ýli kenna nokkrir starfsmenn ÍSOR á námskeiðum, sem haldin eru á vegum Jarðhitaskólans í Kenía og El Salvador, en námskeið þessi eru hluti framlags Íslands til Þúsaldarmarkmiða Sþ. Námskeiðið í Kenía var haldið 12. – 22. nóvember og var tileinkað yfirborðsrannsóknum á jarðhitakerfum. Þrír starfsmenn ÍSOR kenndu á námskeiðinu, þeir Halldór Ármannsson, Knútur Árnason og Kristján Sæmundsson. Aðrir kennarar voru Lúðvík Georgsson frá Jarðhitaskólanum og nokkur fjöldi heimamanna, en þáttakendur voru frá sjö löndum Austur-Afríku. Námskeiðið í El Salvador verður haldið 26. nóvember – 2. desember. Það er fyrir yfirmenn orkumála í Mið-Ameríku og umfjöllunarefnið hvernig standa eigi að rannsóknum og nýtingu jarðhitasvæða. Tveir starfsmenn ÍSOR verða fyrirlesarar á El Salvador-námskeiðinu, þeir Benedikt Steingrímsson og Sverrir Þórhallsson. Aðrir framsögumenn verða Ingvar B. Friðleifsson forstöðumaður Jarðhitaskólans, jarðhitasérfræðingar frá fjórum Mið-Ameríkulöndum auk nokkurra fyrirlesara frá öðrum heimshlutum. Þáttakendum munu koma frá flestum Mið-Ameríkulöndunum. El Salvador-námskeiðið er sambærilegt námskeiði sem haldið var í Kenía fyrir rúmu ári síðan. Þá stefnir Jarðhitaskólinn á það að hefja sambærileg námskeið í Asíu haustið 2007. 

 

Fyrirlesarar á námskeiði í Kenía haustið 2005, sambærilegu því sem er að hefjast í El Salvador. Íslensku fyrirlesarana má greina nokkuð auðveldlega á myndinni.