[x]
17. febrúar 2017

Möguleikar smájarðvarmavirkjana á Íslandi

Á málstofu Orkustofnunar síðastliðinn miðvikudag kynnti Björn Már Sveinbjörnsson, tæknifræðingur hjá ÍSOR, rannsóknarskýrsluna „Medium Enthalpy Geothermal Systems in Iceland". Þar kemur m.a. fram að hægt væri að nýta betur borholur á 29 svæðum sem eru einungis nýtt að hluta til.

Skýrslan greinir frá árangri 289 borholna í sjóðandi lághitakerfi eða svonefnd meðalhitakerfi hér á landi. Kerfin sem valin voru til greiningar uppfylltu þau skilyrði að þar hefði mælst yfir 100°C hiti í holum eða fundist vatn þar sem styrkur kísils benti til meira en 100°C hita. Holurnar eru á 81 borsvæði innan 37 jarðhitakerfa og voru boraðar á árunum 1928-2014.
Flestar holnanna voru boraðar lóðrétt. Boruð dýpt var frá 10-3085 m, að meðaltali 632 m. Af 289 holum skiluðu 173 eða 60% vatni og 62% þeirra eru enn í notkun. Flæði er þekkt í 132 heppnuðum holum. Meðalflæði þeirra er 17 l/s.

Af vinnsluholunum 289 náðu 193 mældum hita yfir 90°C og þær voru greindar frekar. Boruð dýpt þeirra spannar frá 52-3085 m, meðaltal 861 m. Af þessum 193 holum skiluðu 149 eða 77% vatni og af þeim eru 104 eða 70% enn í notkun. Gögn um flæði eru til frá 132 af þessum holum. Meðalflæði þeirra er 17,3 l/s.  Flestar holurnar (89%) eru með æðar eru ofan við 1000 m dýpi. Flæðið er allt að 60 l/s. Flæði á bilinu 0-10 og 10-20 l/s er algengast, með tíðni 47% og 27%. Aðeins 2 holur hafa flæði yfir 62 l/s, önnur 100 og hin 110 l/s. Það eru engar vísbendingar um að magn flæðis sé háð hitastigi vatnsins.

Holur með flæðishita yfir 80°C eru taldar árangursríkar til húshitunar. Þær eru 68% af 193 holum. Holur með flæðishita yfir 95°C eru taldar nýtanlegar til hugsanlegrar rafmagnsframleiðslu. Þær eru 57% af 193 holum.

Þau 37 jarðhitakerfi sem voru greind hafa samanlagt sannað varmaafl 935 MW ef það er nýtt niður að 35°C. Ef varmaaflið í 29 kerfanna er nýtt til raforkuframleiðslu niður að 80°C fást 44 MW rafafls og í afgangsvatni fælist varmaafl 494 MW til beinna nota frá 80°C niður í 35°C. Tíu stærstu jarðhitakerfin hafa sannað varmaafl frá 37-132 MW og rafaflsmöguleika frá 1,0-7,4 MW.
Jarðhitakerfið í Ölfusdal ofan Hveragerðis er á mörkum þess að flokkast sem háhitakerfi. Varmaafl þess niður að 35°C kastvarma er 334 MW. Ef það er nýtt til raforkuframleiðslu niður að 80°C fást 25 MW rafafls og í afgangsvatni fælist varmaafl 86 MW til beinna nota frá 80°C niður í 35°C.

Þessi skýrsla er hluti verkefnis um greiningu árangurs jarðhitaborana á Íslandi, viðbót við gagnagrunn Orkustofnunar og liður í framlagi Íslands til alþjóðasamstarfanna International Energy Agency - Geothermal Implementing Agreement (IEA-GIA) og International Partnership for Geothermal Technology (IPGT).
Skýrsluna í heild sinni má nálgast á vef Orkustofnunar.
Árið 2014 greindi Björn Már árangur borana í háhitaholum og er hægt að lesa um það í skýrslunni „Success of High Temperature Geothermal Wells in Iceland