[x]
23. nóvember 2016

Mjög mikil gróska í jarðvarmarannsóknum

Dagana 24. til 25. nóvember fer fram tveggja daga jarðvarmaráðstefna, að Grand Hótel við Sigtún, á vegum rannsóknarklasans GEORG. Á ráðstefnunni verða kynntar rannsóknir sem klasinn hefur styrkt eða komið að síðastliðin sjö ár. Af nógu er að taka en flutt verða um 50 erindi um nýsköpun, tækni og vísindi tengdum jarðvarma. Opnunarræður flytja:

 • Alexander Richter, forseti Alþjóðajarðhitasambandsins
 • Susanna Galloni, stefnumótunarfulltrúi endurnýjanlegra orkugjafa hjá rannsóknar- og nýsköpunarsviði framkvæmdastjórnar ESB
 • Ólagur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR

Á ráðstefnunni verður jafnframt litið fram á veg og spáð í þróun rannsókna á næstu árum og áratugum. Sérfræðingar sem leiða munu þá umræðu verða:

 • Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri
 • Susanna Galloni, stefnumótunarfulltrúi endurnýjanlegra orkugjafa hjá rannsóknar- og nýsköpunarsviði framkvæmdastjórnar ESB
 • Philippe Jousset, eldfjallafræðingur frá jarðvísindastofnunni GFZ í Þýskalandi
 • Guðrún A. Sævarsdóttir, forseti tækni- og verkfræðideildar Háskóla Reykjavíkur
 • Bjarni Richter, jarðfræðingur og markaðsstjóri ÍSOR
 • Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur

Samkvæmt Hjalta Páli Ingólfssyni rekstrarstjóra GEORG eru miklir möguleikar tengdir jarðvarma og Íslendingar standa mjög framarlega á því sviði, bæði í rannsóknum, vinnslu og nýtingu jarðvarmans. Árangur Íslendinga í styrkumsóknum ber þess líka merki en styrkir til rannsókna tengdum jarðhita hafa aukist umtalsvert á undanförnum árum og eru nú langstærsti liðurinn í úthlutunum styrkja til íslenskra rannsókna úr nýju rannsóknar- og nýsköpunaráætlun ESB, Horizon 2020.
Að jarðvarmaklasanum GEORG standa 21 aðili. Það eru Háskólar, rannsóknar- og stjórnsýslustofnanir, sem mynda nokkurs konar fræðaás, og síðan verkfræðistofur, sprotafyrirtæki og orkufyrirtæki sem mynda iðnaðar- og nýtingarás. Fyrir utan Íslendinga koma sex erlendir aðilar að klasanum frá Þýskalandi, Frakklandi og Bandaríkjunum. Hugsunin með stofnun GEORG var að safna saman allri þessari þekkingu úr ólíkum áttum í einn sameiginlegan vísindahóp sem vinnur og þróar aðferðir til að ná sameiginlegum markmiðum en markmið GEORG eru:

 • að draga úr gróðurhúsaáhrifum 
 • að Ísland verði orkusjálfbært land
 • að skapa grundvöll fyrir nýsköpun á jarðvarmasviðinu

Á ráðstefnunni gefst kostur á að kynnast því sem áunnist hefur með samstarfi margra aðila í gegnum rannsóknarklasann GEORG. 
Ráðstefnan fer fram á ensku og skráning er á vefsíðu hennar http://www.geothermalworkshop.com/