[x]
28. janúar 2005

Mjög góður árangur af borun við Hjalteyri

Í gær, 27. janúar 2005, lauk borun um 1500m djúprar holu á Arnarnesi við Hjalteyri við Eyjafjörð. Markmiðið var að hitta djúpt  í sprungur, sem tengjast því öfluga jarðhitakerfi sem þar fannst við rannsóknir Íslenskrar orkurannsókna fyrir Arnarneshrepp og Norðurorku fyrir fáeinum árum. Þá var boruð mjög vel heppnuð vinnsluhola í kjölfar vandaðra undirbúningsrannsókna þar sem m.a. var í fyrsta sinn beitt nýrri borholusjá til að finna út stefnu og halla sprungna. Prófanir á þeirri holu leiddu í ljós að undir Arnarnesi er öflugasta jarðhitakerfi, sem fundist hefur í Eyjafirði, öflugra en svo að ná megi öllu því vatni, sem þar er að fá, upp um eina holu. Því var ákveðið að bora aðrar holu til að geta fullnýtt kerfið. Jarðborinn Sleipnir lauk við holuna 27. janúar og sérfræðingar ÍSOR á Akureyri mældu og prófuðu hana aðfaranótt 28. janúar.  Árangurinn er mjög mikill og nýja holan er trúlega ein af  bestu holum sem boraðar hafa verið á lághitasvæði á landinu. Sjálft borverkið gekk mjög hratt og vel fyrir sig og er Jarðborunum hf og starfsmönnum þeirra til sóma.Hitaveita Norðurorku hefur áratuga skeið nánast búið við orkuskort, en er nú komin með mikið varaafl úr jarðhitasvæðunum. Gæti hún með núverandi vinnslusvæðum annað mun stærri byggði en nú er í Eyjafirði. Einnig er öryggi heitavatnsflutnings til Akureyrar orðið með því besta sem gerist á landinu.Þessi góði árangur sem orðinn er á Hjalteyri mun skapa grundvöll fyrir ódýra húshitunarorku í Eyjafirði í framtíðinni og styrkja byggðarlögin þar.Á myndinni er Þorsteinn Egilson, jarðeðlisfræðingur hjá ÍSOR á Akureyri, í mælingabíl ÍSOR við prófun á holunni aðfaranótt 28. janúar.