[x]
28. nóvember 2008

Misskilningur um olíuauðlindir á Drekasvæðinu

Kort af Drekasvæði.Að gefnu tilefni verður að leiðrétta misskilning sem hefur verið áberandi í umræðunni undanfarið og varðar hugsanlegan olíuauð og olíuvinnslu á Drekasvæðinu milli Íslands og Jan Mayen.

Sá misskilningur er uppi að búið sé að finna örugg merki um olíu á Drekasvæðinu. Þetta er því miður ekki rétt þar sem engar sýnatökur af hafsbotni eða boranir á svæðinu hafa verið gerðar sem sýna öruggan gas- eða olíuvott. Grunnar holur hafa verið boraðar skammt frá  Drekasvæðinu og á Jan Mayen hrygg sem hluti af alþjóðlegu rannsóknarverkefni. Þær ná aðeins niður í efstu setlögin en ekki niður í basaltþekjuna sem talið er að hylji að stórum hluta hugsanleg miðlífsaldarsetlög (eldri en 65 milljóna ára). Ekki hefur enn tekist að staðfesta að miðlífsaldarsetlög séu til staðar í eða undir Jan Mayen hryggnum þó svo að jarðsaga svæðisins og óbeinar vísbendingar í hljóðendurvarpsgögnum gefi vonir um að svo sé. Tilvist setlaga frá miðlífsöld er lykilatriði í því að veruleg olíuauðlind geti leynst á svæðinu. Gígar eða grópir („pockmarks“)  á hafsbotninum við Jan Mayen hrygginn geta vissulega verið vísbending um að olíugas sé á ferðinni en eru ekki sönnun þess þar sem svipaðir gígar og grópir geta myndast af öðrum orsökum. Því eru einungis til óbeinar vísbendingar um að á Drekasvæðinu geti leynst vinnanlegar olíulindir.

Rannsóknir á Jan Mayen hrygg hófust fyrst af töluverðum þunga á níunda áratug síðustu aldar þegar Jarðhitadeild Orkustofnunar (forveri ÍSOR) og Norska olíustofnunin hófu sameiginlega víðtækar og nákvæmar mælingar á svæðinu. Eftir þetta átak gerðist lítið þar til erlendir einkaaðilar mældu nokkuð af hljóðendurvarpsmælingum árið 2001 og síðan aftur 2008. Hafrannsóknastofnunin fór einnig í leiðangur síðasta sumar með fjölgeisladýptarmæli í samráði við Orkustofnun. ÍSOR var ekki beinn aðili að þeim rannsóknum þótt sérfræðingar ÍSOR séu þeir sem mest hafa unnið að rannsóknum Drekasvæðisins í gegnum tíðina og þá aðallega jarðeðlisfræðingarnir Karl Gunnarsson og Steinar Þór Guðlaugsson. ÍSOR  tók hins vegar saman yfirlit um jarðfræði svæðisins, sem birt var í umhverfisskýrslu iðnaðarráðuneytisins, og er ráðgjafi Orkustofnunar í tengslum við leyfisveitingaútboð sem fer fram í janúar.

ÍSOR mun einnig í framhaldinu vinna sem ráðgjafi Orkustofnunar hvað varðar mat á náttúruauðlindum á Drekasvæðinu en ekki stendur til að íslenska ríkið, Orkustofnun eða ÍSOR gangi fram fyrir skjöldu í framhaldsrannsóknum á svæðinu. Þær verða í höndum þeirra aðila sem fá munu sérleyfi á Drekasvæðinu eins og venja er á öðrum olíusvæðum.

Ein líkleg ástæða þess misskilnings að fundist hefðu kolvetnissambönd á Drekasvæðinu er sú að ruglað hafi verið saman niðurstöðum rannsókna á Gammssvæðinu og Drekasvæðinu. Gammsvæðið er setfylltur sigdalur frá míósentímabilinu (innan við 7 milljóna ára) við og úti fyrir strönd Norðurlands. Þar hafa fundist vísbendingar um hitaummyndað kolvetnisgas, eða svokallað olíugas, í tengslum við háan jarðhitastigul. Þetta er af allt öðrum meiði en olíuhugmyndir í tengslum við Drekasvæðið og er á engan hátt hægt að segja á þessu stigi að þar sé um vinnanlega auðlind að ræða. Allar aðstæður þar eru mjög óhefðbundnar þegar þær eru bornar saman við olíulindir um allan heim.

Einnig er ástæða til að geta þess að túlkun á bylgjubrotsmælingum frá svæðinu milli Kolbeinseyjarhryggjar og Ægishryggjar gefur ekki tilefni til að telja að meginlandsskorpa teygi sig alla leið frá Jan Mayen og inn undir Austfirði.

Varðandi frekari upplýsingar vísast til umhverfismatsskýrslu iðnaðarráðuneytisins, þar sem finna má m.a. yfirlit um jarðfræði Jan Mayen, og til fyrirlestra sem haldnir voru á ráðstefnu um olíumál síðastliðið haust í Reykjavík og finna má á vefsíðu Orkustofnunar (www.os.is).