Miklar annir hafa verið að undanförnu vegna jarðhitaborana, einkum á suðvesturhorni landsins. ÍSOR hefur ekki farið varhluta af þeim, sem sést m.a. á því að aldrei hafa borholumælingar á Íslandi verið umfangsmeiri en í september s.l. Samkvæmt bráðabirgðatölum voru mældir samanlagt um 123 km í mánuðinum. Stór hluti þessa eru mælingar vegna borana þriggja háhitaholna á Hellisheiði, HE-12, 13 og 14, en einnig mælingar í háhitaholum á Reykjanesi, í Kröflu, á Þeistareykjum og í Bjarnarflagi. Í lok september höfðu verið mældir tæplega 500 km samanlagt í borholum, sem er 20 km lengra en loftlína frá Reykjanestá að Fonti á Langanesi, og ef fer sem horfir þá verður árið 2004 metborholumælingaár.