[x]
10. apríl 2007

Merkur áfangi hjá Hitaveitu Dalvíkur

Gestir virða fyrir sér nýju dæluna.Þann 15. mars sl. var dæla í nýrri vinnsluholu Hitaveitu Dalvíkur, ÁRS-32, gangsett með formlegum hætti. Holan var boruð síðasta vor af jarðbornum Sögu. Holan, sem staðsett er á Birnunesborgum, er rúmlega 900 m djúp og skar hún góðar æðar í um 540 til 550 m dýpi. Holan hafði reyndar verið í notkun um nokkurra vikna skeið, því hún var sett í gang þegar dælan í holu ÁRS-29 bilaði. Þá þurfti að hafa hraðar hendur við að koma dælu í holu ÁRS-32 og koma henni af stað. Vatnsborð í miðlunartanki var komið niður fyrir 3 m þegar dælan í ÁRS-32 fór af stað. Eftir að dælan var gangsett fylltist tankurinn aftur á einni klukkustund. Það var Svanfríður Jónasdóttir sem startaði dælunni við hátíðlega athöfn. Nú eru næstu verkefni hjá Hitaveitu Dalvíkur að tengja saman veitusvæðin tvö að Hamri og Birnunesborgum og svo að leggja hitaveitu fram Svarfaðardal að Þverá og Syðri-Haga.