[x]
16. nóvember 2004

Málþing um niðurdælingu.

Niðurdæling er orðin lykilatriði í rekstri fjölmargra jarðhitakerfa um allan heim, en hefur þó verið lítið stunduð á íslenskum jarðhitasvæðum þar til á allra seinustu árum. Með niðurdælingu er affallsvatni frá jarðhitavirkjunum, bakrásarvatni frá beinni notkun eða vatni af öðrum uppruna komið niður í viðkomandi jarðhitakerfi.Upphaflega var byrjað að dæla affallsvatni niður af umhverfisástæðum, en síðan hefur komið í ljós að niðurdæling nýtist einnig til þess að viðhalda þrýstingi í jarðhitakerfum og til að sækja meiri varma í berg þeirra. Niðurdæling var fyrst stunduð í El Salvador í Mið-Ameríku, á Geysers-svæðinu í Kaliforníu og í Larderello á Ítalíu fyrir u.þ.b. þremur áratugum og í dag er svo til öllu affallsvatni dælt niður á fjölmörgum jarðhitasvæðum erlendis. Niðurdæling á Íslandi hófst í Svartsengi 1984 og er nú auk þess hafin í nokkrum mæli á Nesjavöllum, á Laugalandi í Eyjafirði, í Kröflu og á Laugalandi í Holtum. Ýmis vandamál ásamt auknum kostnaði tengjast niðurdælingu til langs tíma, sem finna þarf lausnir á. Þeirra alvarlegust er kólnun vinnsluholna og útfellingar í niðurdælingarholum.