[x]
23. júní 2014

Líffræðinemar fá leiðsögn um jarðhita og jarðfræði

Anett Blischke að leiðbeina nemendum við einn hverinn. Ljósmynd Oddur Vilhelmsson.Sérfræðingar ÍSOR á Akureyri eru meðal leiðbeinenda á alþjólegu námskeiði um örvistfræði norðurslóða (Arctic Microbial Ecology) sem fram fer á Akureyri dagana 15.-28. júní.

Fjórir háskólar standa að námskeiðinu að þessu sinni: Háskólinn á Akureyri, University of Reading í Bretlandi, Jacobs University Bremen í Þýskalandi og Universiteit Gent í Belgíu. Auk þess koma kennarar og gestafyrirlesarar frá Universidad Pública de Navarra á Spáni, ÍSOR, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun og Sjávarútvegsmiðstöð. Alls verða 34 nemendur á námskeiðinu frá 11 löndum, þ.e. Belgíu, Bretlandi, Búlgaríu, Íslandi, Moldavíu, Nígeríu, Nepal, Rúanda, Slóveníu, Svartfjallalandi og Þýskalandi.

Meginmarkmið námskeiðsins er að þjálfa nemendur í sýnatöku við náttúrulegar og oft erfiðar aðstæður. Eins að þjálfa nemendur í að nota bæði hefðbundnar og nýstárlegar aðferðir við að greina fjölda og tegundasamsetningu örvera í náttúrlegu umhverfi. Einnig verður nemendum gefinn kostur á að taka þátt í greiningarvinnu á áður óþekktum bakteríutegundum úr íslenskri náttúru og huga að líftæknilegu notagildi þeirra en ætla má að einhverjar þessara jaðarvera geti framleitt verðmæt ensím með notagildi fyrir ýmiss konar iðnað.

Aðkoma sérfræðinga ÍSOR tengist fyrirlestrum um jarðfræði Íslands, jarðhita og jarðefnafræði auk þátttöku í vettvangsferðum.

Nánar má lesa um námskeiðið á vef Háskólans á Akureyri.