[x]
9. febrúar 2011

Langtímaprófun á vinnsluholum í Tyrklandi lofar góðu

ÍSOR hefur átt í samstarfi við tyrkneskt orkufyrirtæki, BM-Holding, um langtímaprófun á tveimur vinnsluholum og áhrif jarðhitavinnslunnar á jarðhitageyminn. Um er að ræða fyrirhuguðu virkjunarsvæði í Gümüsköy í vesturhluta Tyrklands.

Á svæðinu hafa verið boraðar tvær fyrirhugaðar vinnsluholur sem báðar eru um 2000 m djúpar ásamt nokkrum hitastigulsholum og kjarnaholum.Borun lauk rétt fyrir síðustu áramót.

Um miðjan janúar 2011 hófst langtímaprófun á borholunum og er gert ráð fyrir því að hún standi í allt að þrjá mánuði. Prófunin felst í blástursprófun á vinnsluholu ásamt því að fylgjast með vatnsborði í nærliggjandi holum. Samningurinn fól í sér hönnun og smíði þriggja mælitækja til að mæla vatnsborð í borholum en þau byggja á þekktri mælitækni sem hefur mikið verið notuð í mælingum á yfirborðsvatni og borholum á Íslandi. Með tækinu er köfnunarefni dælt niður í borholuna og þrýstingur mældur á ákveðnu dýpi og hefur ÍSOR m.a. notað þessa tækni til mælinga á vatnsrennsli úr háhitaholum á Hellisheiði. Blástursprófun fyrstu vinnsluholunnar tókst með ágætum og virðist holan vera vænleg til jarðhitavinnslu.

Fyrirtækið BM-Holding er tyrkneskt fjölskyldufyrirtæki sem mest hefur verið í uppbyggingu og rekstri vatnsorkuvera, en er nú að feta sín fyrstu skref í átt að uppbyggingu jarðhitavirkjana bæði til rafmagnsframleiðslu og til upphitunar í gróðurhúsum. Tyrkland er land þar sem vænta má nokkurs jarðhita enda um talsverða virkni að ræða þar sem landið liggur á mótum stórra jarðskorpufleka. Árið 2010 var rafmangsframleiðsla með jarðhita u.þ.b. 100 MWe, en bein notkun jarðhita einkum í gróðurhúsum u.þ.b. 800 MWt. Ljóst er að miklir möguleikar eru á áframhaldandi jarðhitavinnslu í Tyrklandi og verður spennandi að fylgjast með þróun þeirra mála í nánustu framtíð.Vinnsluholan, GK-1, í fullum blæstri 16. janúar 2011