[x]
20. október 2008

Landslagsfyrirbærum á hafsbotni gefið nafn

ÍSOR hefur undanfarin ár unnið að jarðfræði- og jarðeðlisfræðilegum mælingum vegna undirbúningsvinnu fyrir olíuleit á Drekasvæðinu við Jan Mayen hrygg. Eins og kom fram í  Fréttablaðinu sl. mánudag hefur Haukur Jóhannesson jarðfræðingur komið með tillögur að nöfnum á náttúrufyrirbærin á hafsbotninum í kringum Ísland. Haukur nefnir að Íslendingar hafi í gegnum tíðina gefið stöðum í hafinu heiti. Sjómenn hafi einkum verið iðnir við það, en þeir hafi ekki verið á Drekasvæðinu og þar hafi alveg vantað örnefni. Einnig lentu starfsmenn ÍSOR í vandræðum þegar þeir hófu að túlka sínar jarðeðlisfræðilegu mælingar. Ekki hafi verið auðvelt að fjalla um svæðin og styðjast bara við hnit þeirra en um leið og örnefni voru komin á kortin varð öll lýsing mun skýrari og mun auðveldara að skrifa eða fjalla um svæðin.

Svæðin sem hér um ræðir eru í Ægisdjúpi (Síldarsmugunni), á Bergrisanum (Hatton-Rockall) og á Drekasvæðinu. Til að byrja með voru nöfnin yfir svæðin sótt í landvætti okkar Íslendinga. Þannig var Drekasvæðið nefnt eftir drekanum sem fló út Eyjafjörð. Bergrisinn var nefndur eftir risanum sem kom út úr Lómagnúpi og stefndi í suður, en svæðið þekkist einnig sem Hatton-Rockall. Nafngiftirnar eru tillögur, fengnar úr íslenskum bókmenntum. Frægasti dreki í íslenskum fornbókmenntum er Fáfnir og því eru nöfn á Drekasvæðinu sótt í Völsungasögu. Þaðan koma t.d. nöfnin Fáfnir, Otur, Sigurður, Gunnar, Gjúki, Sörli og Erpur, stærri hryggirnir hafa fengið þessi nöfn. Síðan má nefna Fáfnisrenna, Sörlabotn og Gjúkakrók.

Á svæðinu er nefnist Bergrisinn eru nöfn frægra íslenskra risa höfð fyrir stærri einingar en yfir smærri fyrirbæri eru notuð dvergaheiti. Má þar nefna nöfn eins og Skrýmisgrunn og Hrungnisgrunn og Durinn og Dvalinn.

Haukur segir það ekki séríslenskt fyrirbrigði að gefa náttúrufyrirbærum á hafsbotninum nafn. Norðmenn hafi t.d. sótt nöfn úr fornnorrænum bókmenntum „...og afbökuðu náttúrulega á sinn hátt því þeir kunna ekki íslensku“. Hann nefnir að nauðsynlegt sé að fleiri aðilar þurfi að koma sér saman um nöfnin, eins og Sjómælingar og Hafrannsóknastofnun, því samstaða þurfi að ríkja um þau.

Örnefni frá Drekasvæðinu.