[x]
29. október 2020

Landris við Krýsuvík

Umbrotahrina hefur staðið yfir á Reykjanesskaga á árinu. Þessi hrina hófst með jarðskjálftum og landrisi við fjallið Þorbjörn 22. janúar 2020.  Skjálftavirknin færðist síðan í hrinum yfir stærsta hluta Reykjanesskagans vestan Kleifarvatns. Stærsti skjálftinn reið yfir nú í október og var 5,6 að stærð samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands. Skjálftavirkni í þessari hrinu er mjög sambærileg við skjálftahrinu sem varð á Skaganum á milli 1971 og 1975 að öðru leyti en því að hrinan nú gengur mun hraðar yfir.

Í tengslum við yfirstandandi umbrotahrinu hefur komið fram að landris á sér nú stað við Krýsuvík. Það sést vel á meðfylgjandi myndum sem Vincent Drouin, jarðeðlisfræðingur hjá ÍSOR, hefur unnið og tengjast meðal annars rannsóknum sem ÍSOR vinnur að fyrir HS Orku á þessu svæði. Þær byggja á bráðabirgðaúrvinnslu á fjarkönnunargögnum úr Sentinel-1 gervitungli Geimvísindastofnunar Evrópu sem eru opin og aðgengileg. Gögnin sem um ræðir eru eins konar radar myndir sem nota má til að mæla hreyfingar á yfirborði jarðar með fárra millimetra nákvæmni þegar best lætur.

 Myndin vinstra megin sýnir meðalrishraða frá byrjun ágúst og fram í miðjan október 2020. Myndin er byggð á tveimur mismunandi ferlum Sentinel-1 gervitunglsins yfir svæðið, T6 og T155. Myndin til hægri sýnir landrisið nærri miðju þess, mælt í stefnu á gervitunglið fyrir báða ferla þess. (Vincent Drouin, ÍSOR)

Myndin vinstra megin sýnir meðalrishraða frá byrjun ágúst og fram í miðjan október 2020. Myndin er byggð á tveimur mismunandi ferlum Sentinel-1 gervitunglsins yfir svæðið, T6 og T155.  Myndin til hægri sýnir landrisið nærri miðju þess, mælt í stefnu á gervitunglið fyrir báða ferla þess. Á myndinni til hægri sést að landrisið hefst í ágúst og fram í miðjan október nemur það alls 8-10 mm. Kortið vinstra megin sýnir staðsetningu landrissins og hraða þess í millimetrum á ári á sama tímabili. Miðja þess er undir Móhálsadal og Sveifluhálsi, milli suðurenda Kleifarvatns og Djúpavatns. Það er nokkurn veginn í miðju víðáttumikils nærri hringlaga háhitasvæðis sem kennt er við Krýsuvík og Trölladyngju.

Landrisið hefur verið túlkað sem vísbending um að  kvika sé þarna að streyma inn í jarðskorpuna enda við því að búast að innskot verði af og til inn í rætur háhitasvæða og viðhaldi orkunni í þeim.  Hér er þó þörf á að gæta varúðar í ályktunum því ýmis konar vökvafyrirbæri tengd jarðhitavirkni geta valdið landrisi og landsigi. Um það eru einmitt dæmi frá Krýsuvíkursvæðinu.

Jarðvísindastofnun Háskólans hefur rekið GPS-mæla á nokkrum stöðum á Krýsuvíkursvæðinu um langt skeið. Stöð sem er skammt sunnan við skólabygginguna í Krýsuvík hefur verið í rekstri frá 2007 og önnur stöð frá árinu 2009 er í Móhálsadal, nærri miðju núverandi landriss. Þessar stöðvar eru báðar í sískráningu og eru mælingarnar birtar á vefsíðu stofnunarinnar (https://strokkur.raunvis.hi.is/~sigrun/KRIV.html). Næstu myndir sýna mæliniðurstöður þessara stöðva eins og þær birtast á vefsíðunni.

Efri myndin sýnir mælt landris á GPS-stöð Jarðvísindastofnunar Háskólans í Móhálsadal og sú neðri frá stöð sunnan Krýsuvíkur. Sú fyrrnefnda sýnir ákveðið landris frá ársbyrjun 2010 fram undir árlok 2011 sem nemur u.þ.b. 7 cm á 20 mánuðum. (Sótt af vef Jarðvísindastofnunar HÍ)

Efri myndin sýnir mælt landris á GPS-stöð Jarðvísindastofnunar Háskólans í Móhálsadal og sú neðri frá stöð sunnan Krýsuvíkur. Sú fyrrnefnda sýnir ákveðið landris frá ársbyrjun 2010 fram undir árlok 2011 sem nemur u.þ.b. 7 cm á 20 mánuðum. Frá 2011 fram til miðs árs 2020 seig landið hins vegar undir þessari stöð um nálega 12 cm en þá tók land að rísa nokkuð snögglega á ný. Sambærilegt mynstur sést á Krýsuvíkurstöðinni en þó mun minna sem bendir til meiri fjarlægðar frá rismiðjunni. Þessu til viðbótar sýna mælingarnar við Krýsuvík að landris og landsig hefur orðið þar árin 2008 og 2009.

Jarðvísindamenn hafa talsvert velt fyrir sér skýringum á þessu landrisi og sigi. Meðal annars fjölluðu jarðeðlisfræðingarnir Freysteinn Sigmundsson og Sigrún Hreinsdóttir og Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, um þessi mál í fjölmiðlum á árunum 2009 til 2012. Nefna þau öll tvær hugsanlegar meginskýringar, annaðhvort kvika sé að troðast inn í jarðskorpuna á um 4 km dýpi eða um sé að kenna auknum vökva- eða gasþrýstingi í jarðhitakerfinu á sama dýpi af einhverjum orsökum.

Stöðugt landsig frá árslokum 2012 til 2020 mælir sterklega gegn því að landrisið fyrir 2011 hafi stafað af kvikuinnskoti því útilokað má telja að kvika sem einu sinni er búin að troða sér í litlu magni í jarðskorpuna geti runnið til baka. Því er skýringanna líklegast að leita í einhvers konar vökva- eða gasþenslufyrirbærum í jarðhitavökvanum. Sú kenning á sér raunar stoð í niðurstöðum jarðskjálftarannsókna og viðnámsmælinga sérfræðinga ÍSOR og franskra samstarfsaðila þeirra sem sýna engin merki um kviku ofan 6 km dýpis á þessu svæði en jafnframt skýr ummerki um gas eða vökva í yfirmarksástandi á þessu dýpi í jarðskorpunni. 

Ekki skal fullyrt hér um orsakir núverandi landriss en best er að skoða alla möguleika í ljósi sögunnar og fyrirliggjandi gagna.

Tengdar fréttir

Yfirlit um jarðfræði Reykjanesskaga

Jarðskorpuhreyfingar á Reykjanesskaga

Neðansjávarhraun við Grindavík - sögulegt

Hugleiðingar um jarðhræringarnar við Grindavík í ársbyrjun 2020

Svæðið vestan við Þorbjörn rís og skelfur á ný